10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Einar Jónsson:

Eg hefi áður lýst afstöðu minni til þessa máls. Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) gat þess, að gott væri að fá sem beztar upplýsingar í þessu máli, en sagði að þær fengist ekki betri hjá prófessor B. M. Ólsen en hverjum öðrum. Í þessu atriði er eg honum ósamþykkur, því að hann er maður, sem varið hefir lífi sínu og starfi í rannsókn þessara greina og þar að auki samvizkusamur og vandaður maður. Mér virðist því, að hans dóm verði að meta meira en nokkurs annara manna hér á landi.

Mér virðist það alveg óþarft að vera að stofna sérstakt kennaraembætti í þessum dauðu málum, sem ekki eru líkindi til að margir leggi stund á. Því er nú svo varið, að vér eigum kennara við háskóla vorn, sem engan nemandann hafa, og eg kalla það að bera í bakkafullan lækinn, ef vér eigum nú að fara að bæta einum slíkum kennara við.

Annars ætla eg ekki að fara að endurtaka það, sem áður hefir verið sagt — það er ekki vandi minn. Eg mun greiða atkvæði á móti þessu frumvarpi og álit það vel forsvaranlegt núna. Eg fullyrði ekkert um það, að þetta geti ekki verið nauðsynlegt, en það er ekki svo nauðsynlegt, að margt annað eigi ekki að sitja í fyrirrúmi.