03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

79. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Bjarni Jónsson :

Eg stend nú upp til þess að verja stjórnina. Eg kann því illa, að verið sé að hvetja hana til þess að taka fé í heimildarleysi og víta hana fyrir það, að leggja fjáraukalög fyrir þingið. Það er varla við því að búast, að ráðherra sé svo hræddur fyrir landsins hönd, að hann þori ekki að trúa þinginu fyrir slíku frumvarpi, af ótta við það, að það muni sóa um of fé landsins. Þetta og annað eins liggur fyrir utan hugsanagang annara en þeirra, sem annaðhvort eru afarmenni eða utan við sig. (Sigurður Sigurðsson: Það geta nú sumir þingmenn verið hættulegir). Já, það veitti ekki af að bæta inn í frumv. einum lið, til þess að reisa skýli fyrir menn, sem eru miður sín í andlegum efnum. (Sigurður Sigurðsson: Það er ekki að vita, hver fyrst færi þangað). Þá er að fá sér ráðunaut til þess að skera úr því.