23.07.1914
Neðri deild: 19. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

79. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Skúli Thoroddsen :

Eg hafði búist við, að einhverjir þeirra manna hér í deildinni, sem ganga með þann huga, að fella frv. þetta, myndu hafa talið sér það skylt, að gera grein fyrir, hvað leitt hefði þá til þeirrar ályktunar.

Eg var nýlega staddur á fundi, þar sem slík ályktun var gjörð, og var eg ályktuninni mótfallinn, því að mér finst þvert á móti, að vér getum verið stjórninni þakklátir fyrir það, að hún hefir komið fram með frv. til fjáraukalaga, svo að sætt verði þá færinu, fyrst þing er haldið á annað borð, og fé veitt til fyrirtækja, sem ekki mega dragast, enda sparar það þá og stjórninni sjálfri að þurfa að nota fé í heimildarleysi, eða láta óhjákvæmilegar fjárveitingar dragast.

Hvað mig snertir — þar sem flokksbræður svo nefndir eru annars vegar, þá held eg, að eg geti farið það lengst, að greiða ekki atkvæði, enda stóð eg að eins upp til að gera grein fyrir þessu, en hafði sem sagt vænst þess, að það hefði komið hér fram í umræðunum, hvað knúð hefði menn til að taka þessa ályktun, sem eg verð að álíta að lýsi fremur lágum eða lítilsigldum hugsunarhætti, enda sé því líkast, að gjöra of lítið úr almenningi, er ætlast er til þess, að hann gangist upp við þannig lagaða »sparnaðar-pólitík«.