08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

113. mál, kosningar til Alþingis

Framsögum. minni hl. (Magnús Kristjánsson):

Háttv. framaögum. meiri hl. (E. A.) hefir nú haldið langan lestur, ekki reiðilestur að vísu, eins og hann komst sjálfur að orði um ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.), það væri nær að kalla það vandræðalestur.

Því hefir verið haldið hér eindregið fram, að fyrir lægi yfirlýstur þjóðarvilji um það, að meiri hluti þjóðarinnar væri á móti öllum breytingum á kjördæmaskipuninni. Þessu verð eg að neita algerlega.

Háttv. framsögum. meiri hl. (E. A.) hefir oft tekist betur að framflytja málstað sinn en nú, enda er ekki við öðru að búast, þar sem málstaðurinn er ekki betri en hann er. Hann hefir oft og einatt haft lag á því að gera sína skoðun sennilega í almenningsaugum, jafnvel þótt við nánari athugun hafi það getað orkað tvímælis, hvort skoðunin væri á fullum rökum bygð. (Einar Arnórsson: Þetta kemur nú ekki beinlínis málinu við). Það getur satt verið, en háttv. framsögum. meiri hl. (E. A.) ætti sízt að fara út í það.

Mér þykir það hálfundarlegt, að hv. frams.m. meiri hl. (E. A.) Skuli halda því fram, að úr því að ekki liggi fyrir skýlaus yfirlýsing frá þeim, sem njóta nú í þessu efni margfaldra réttinda fram yfir það sem þeir eiga, að þeir vilji fá ástandinu breytt, þá sé sjálfsagt að gera ekkert í málinu. En hann vill ekkert tillit taka til vilja þeirra manna, sem með rökum hafa sýnt fram á, að þeir sé misrétti beittir og krafist hafa réttarbóta. Þetta kann að vera venjuleg málflutningsmannaaðferð, en samt sem áður get eg ekki talið hana viðeigandi, hvorki í þessu máli né öðru. Eg hygg, að háttv. framsögum. meiri hl. (E. A.) hafi oftalað sig, er hann sagði, að ræða háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) og ræða mín væri vanhugsað hjal, að minsta kosti var það oftalað að því er 1. þm. Rvk. snerti.

Þó að svo kunni að vera, að í þingmálafundargerðunum sé ekki farið fram á, að kjördæmaskipuninni sé breytt, þá verð eg að leggja meiri áherzlu á það, sem á undan er gengið á undanförnum þingum. Þar hafa hvað eftir annað legið fyrir óskir um þetta efni. En því meiri ástæða er til að láta nú til skarar skríða í þessu máli, þar sem vænta má, að stjórnarskrárbreytingin nái fram að ganga, og engum réttsýnum manni getur blandast hugur um, að eitt aðalatriði hennar verður að miklu leyti að engu gert, ef við svo búið verður látið standa um kjördæmaskipanina.

Eg skil ekki, hvernig þingið ætlar að réttlæta það, ef það lætur þetta mál með öllu afskiftalaust. Með stjórnarskrárbreytingunni er verið að reyna að koma á jöfnuði milli manna að því er snertir kosningarréttinn. Hvernig getur þá sama. þingið, sem afgreiðir það mál, neitað að bæta úr stærsta óréttlætinu og ójöfnuðinum í þessu efni?

Mér virðist háttv. framsögum. meiri hl. (E. A.) vera því mjög mótsnúinn, að borgarar þessa bæjar fái þeirri sanngjörnu og sjálfsögðu málaleitun sinni framgengt, að þeir geti fengið að hafa dálítið svipuð afskifti af stjórnmálum landsins og aðrir kjósendur. Eftir þeirri viðkynningu, sem eg hefi haft af þessum háttv. þm. (E. A.) hér á þinginu, þá taldi eg hann manna líklegastan til þess, að veita þeim mönnum lið, sem misrétti eru beittir, þó að þeir ætti verri aðstöðu. Nú fer eg að verða vondaufur um það.

Eg sé enga ástæðu til að tala um þær sérstöku breytingartill., sem meiri hl. hefir komið fram með. Þær eru flestar smávægilegar, að undantekinni þessari einu, úrfellingu i. gr. frumv. En eitt vildi eg biðja menn að taka til athugunar, því að úr því atriði geri eg mikið. Í frumv. er farinn sá sanngjarni millivegur, að ekki er eingöngu tekið tillit til fólksfjöldans, heldur jafnframt til staðháttanna. Og. það hefir mikla þýðingu í þessu máli, að kröfum þeirra, sem misrétti eru beittir í þessu efni, sé sint þegar í stað, og kjördæmaskipaninni komið í viðunandi horf. Því að fyrir því má ráð gera, að því lengur sem réttinum er haldið, því harðari verði kröfurnar, og að því komi innan skamms, að menn heimti beinlínis, að eingöngu sé tekið tillit til kjósendafjöldans þegar um kjördæmaskipanina verður að ræða. Getur farið svo, að erfitt verði að bæla þær kröfur niður. Vegna þess að hér kemur svo margt til greina, álít eg heppilegast, að menn snúi sér þegar í stað að þeirri stefnu, sem í frv. felst, og taki það millispor, sem þar er gert ráð fyrir. Mundu menn ef til vill sætta sig við það í langan tíma.

Eg skal svo ekki orðlengja meira um málið að sinni. Ræða háttv. framsm. meiri hl. (E. A.) var meira almenn, en að í henni væri nokkur Sérstök atriði, sem eg þarf að svara, enda í rauninni ekki deilt um annað en það, hvort 7. gr. frumv. á að standa eða falla.