22.07.1914
Neðri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

75. mál, sparisjóðir

Einar Arnórsson :

Eg skal reyna að vera stuttorður, enda eru umræður orðnar nokkuð langar. Því er miður, að hæstv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.) er ekki viðstaddur, því að eg ætlaði að svara honum nokkrum orðum. Hann

talaði um, að eftirlitsmaðurinn gæti komið í veg fyrir, að óreiðumenn fengi peningalán í sparisjóðunum, eins og nú ætti sér stað. Það getur verið, að það hafi komið fyrir, að óreiðumenn hafi fengið lán í sparisjóðunum og víðar. En nú er síður hætta á því en áður, því að margir slíkir menn eru orðnir þektir um allar sveitir og enginn lánar þeim. Eg býst líka við, að eftirlitsmaðurinn gæti ekki mikið gert til þess að fyrirbyggja að þessir menn fengi lán, því að hann myndi ekki rannsaka hvern sparisjóð nema einu sinni á ári, ef það þá yrði svo oft, sem eg efast mjög um. Hann gæti varla gert það oftar, því að sparisjóðirnir eru nú orðnir svo margir. Þeir voru 1910 30 á öllu landinu auk Reykjavíkur, og hafa víst fjölgað síðan.

Minni hluti nefndarinnar stingur upp á því, að stjórnarráðið fái heimild til að heimta, að sparisjóðirnir láti því í té allar nauðsynlegar skýrslur um rekstur sparisjóðanna og allan hag þeirra. Þetta sýnist mér sjálfsagt fyrirkomulag. En gæti þá ekki stjórnarráðið, eins vel og eftirlitamaðurinn, haft eftirlit með því, að einstakir menn, sem hefði flækt Pétur og Pál, Jón og Þórð í ábyrgðir, fengi ekki lán lengur. Eg býst við, að mér verði svarað því, að stjórnarráðið hafi nóg á sinni könnu, og þyrfti þá að bæta við sig mönnum. En eg hygg, að nú sé t. d. á 3. skrifstofu nægur mannafli til þess að yfirlita reikninga og skýrslur sparisjóða landsins. Þar hefir nú verið bætt við manni, og svo er nú komin á fót hagstofa, svo að ekki tefja landshagsskýrslurnar lengur. (Klemens Jónsson: Vörutollurinn er kominn í staðinn). Þó að vörutollurinn sé kominn í staðinn, þá eru víst nógir menn til þessa.

Viðvíkandi ákvæði 17. greinar, um að hver sparisjóður skuli alt af eiga að minsta kosti 5% af innstæðufénu samanlögðu, eins og það var í árslok næst á undan, í tryggum verðbréfum eða í banka, þá finst mér þetta vera nokkuð hart, ekki sízt fyrir unga og litla sparisjóði. Eg þekki slíka sjóði, sem ágætismenn standa að, og eru fullkomlega tryggar peningastofnanir, t. d. sparisjóðurinn »Gullfoss« í Árnessýslu, sem ekki myndi geta fullnægt þessu skilyrði. Þessi sparisjóður, sem eg nefndi, var stofnaður árið 1906, og á nú í innstæðufé samtals 45.000 kr., en varasjóður hana nemur 12–1300 kr. Eftir 17. gr. þessa frumv. yrði hann auk varasjóðsins að leggja 5% af 45.000 kr., eða 2250 kr., í banka. Eg sé ekki, að hægt sé með nokkurri sanngirni að heimta slíkt. Þessi upphæð er á 3. þúsund krónur, og er þá auðséð, að sjóðurinn yrði að leggja niður starfsemi sína, ef hann ætti að fullnægja þessu skilyrði. Eg veit, að samkvæmt 2. gr. frumv. er stjórnarráðinu heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum einatakra greina, en eg á alls ekki víst, að það geri það. (Klemens Jónsson: Varasjóður þessa sparisjóðs er nokkuð lítill). Að vísu kann svo að vera, en það er líka aðgætandi, að sparisjóðurinn er í heild sinni lítill og líka ungur. Eg þekki alla mennina, sem að honum standa, og veit, að þeir eru allir mjög áreiðanlegir og heiðarlegir menn. Og einn þeirra hefir auk þess starfað við sparisjóði í yfir 20 ár. Í sambandi við þetta má geta þess, að sparisjóðir hafa nú vanalegast reikningslán að einhverju leyti hjá bönkunum. Eg tel miklu réttara, að sparisjóðirnir fengi fé að láni hjá bönkunum, heldur en að þeir verði lögskyldaðir til þess að lána bönkunum fé.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) færði það fram sem meðmæli með þessum fyrirhugaða eftirlitsmanni, að hann myndi koma í veg fyrir, að sparisjóðirnir biði tjón af viðskiftum sínum. Hann lét svo um mælt, að nú yrði brunnurinn ekki byrgður fyrr en barnið væri dottið ofan í hann, þ. e. a. s., að ekkert yrði að gert fyrr en sjóðurinn hefði þegar tapað eða væri kominn í það ástand, að tap yrði óhjákvæmilegt. En eg hygg, að þessi eftirlitamaður myndi ekki heldur að jafnaði byrgja brunninn fyrr en barnið væri dottið ofan í hann.

Það hefir verið sagt, að menn tryði ekki litlu sparisjóðunum fyrir fé sínu vegna þess, að ekkert eftirlit yrði haft með þeim af hálfu hins opinbera, ef breytingartillögur minni hlutans yrði samþyktar. Þetta er víst óhætt að segja að sé rangt. Trú manna á sparisjóðina fer víst ekki að jafnaði eftir stærð þeirra, heldur eftir því, hvert traust menn hafa á forstöðumönnum þeirra.

Eg get bent á það, að þótt þetta opbera eftirlit með sparisjóðunum kæmist á og þessi eftirlitsmaður yrði ráðinn, þá er ekki loku skotið fyrir, að menn yrði samt hrekkjaðir. Það er því miður ekki dæmalaust, að menn sé hrekkjaðir á þessu opinbera eftirliti. T. d. er opinbert eftirlit haft með sýslumönnum hér á landi, og kemur þó helzt til oft fyrir, að sjóðþurð verður hjá þeim. Og eg hefi ekki meiri trú á eftirlitamanni sparisjóðanna, heldur en stjórnarráðinu. (Sveinn Björnsson : Það hefi eg). Já, vera má, að svo sé. Það tjóar ekki að deila um það, því að það er náttúrlega trúaratriði.

Eg skal fúslega játa, að það er rétt sem hæstv. umboðamaður ráðh. (Kl. J.) sagði, að æskilegast væri að sparisjóðir takmörkuðu eftir föngum víxil- og sjálfskuldarábyrgðarlán sín. En eg sé ekki, að eftirlitsmaður sparisjóðanna geti nokkuð við það ráðið.

Eg held, að þessi eftirlitsmaður meiri hlutans og stjórnarfrumvarpsins verði svo gagnslaus og þó tiltölulega dýr, að engin veruleg eftirsjá sé að honum, enda mun eg ekki hika við að greiða atkv. með tillögum minni hluta nefndarinnar um þetta atriði.