29.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

75. mál, sparisjóðir

Magnús Kristjánsson:

Af því að eg er dálítið riðinn við þetta frv., langar mig til að segja nokkur orð, áður en því er ráðið til lykta.

Það hefir komið fram í umræðunum, að mönnum er ekki sem bezt ljóst um aðstöðu nefndarinnar til frv., og hafa sumir haldið því fram, að um verulega stefnubreyting væri að ræða, bæði hjá meiri- og minni hl. nefndarinnar. Það sannar, að einmitt þeir nefndarmenn, sem vildu gera sitt ítrasta til þess, að málinu yrði heppilega til lykta ráðið nú, gengu eins langt til samkomulags og þeir sáu sér fært. Það er því alveg óþarft að metast um það, hvort meiri eða minni hl. hafi slakað til. Eg held, að sú samvinnufýsi megi heldur teljast nefndarmönnum til lofs en lasts, og að með till. nefndarinnar verði frv. ráðið til nokkurnveginn heppilegra lykta.

Eg stend upp aðeins til þess að minnast á 5. brt. á. þskj. 226. Hér er um verulegt atriði að ræða, sem valdið hefir nokkurum ágreiningi. Sumir halda því fram, að tryggingarféð megi alveg fella burtu; aðrir, að viðunanda sé að hafa það 3% af innstæðufénu. Eg lít nú nokkuð öðruvís á þetta atriði en aðrir. Eg lít svo á, að þörfin á þessu tryggingarfé sé fult svo mikil meðan sparisjóðirnir eru smáir og í byrjun. Eg veit ekki, hvort menn hafa veitt því athygli, að í 12. gr. frumv. er sparisjóðum ætlað að eiga bæði varasjóð og svo þetta tryggingarfé. Nú sjá það allir, að nýstofnaðir sparisjóðir geta engan verulegan varasjóð eignast fyrstu árin. Jafnvel þótt stjórnarkostnaður sé enginn, stjórnin tæki ekkert fyrir störf sín, þá legst þó annar kostnaður á sjóðina, sem mest kveður að fyrst, t.d. kaup á peningaskáp og öðrum gögnum og ritföngum o. fl. Auk þess getur það ekki lengi gengið, að starfsmenn fái ekkert fyrir starf sitt. Það er þá bersýnilegt, að ekki getur verulega safnast í varasjóð fyrstu árin. Ef því þessum 5% væri slept, þá yrði ekkert tryggingarfé, og þá ekkert handbært fé í mörgum tilfellum í sparisjóðunum. Eg veit ekki, hvort menn hafa nægilega íhugað þetta atriði. En heldur en að málið strandi á þessu, mun eg greiða atkvæði með breyt.till. um að færa tryggingarféð niður í 3%, þótt ekki telji eg það heppilegt.

Eg skal ekki fara út í fleiri breyt till. En eg skal taka það fram, að eg álít æskilegast, að sem minst yrði frá tillögum nefndarinnar vikið. Eg tel þá breyt.till. á þskj. 210 bráðnauðsynlegar; sömuleiðis 1., 3., 6. og 8. breyt.till. á þgskj. 226; breyt.till. á þskj. 259 er sjálfsögð. Hinar breyt.till. tel eg sjálfsagt að fella. Þótt breyt.till. á þskj. 243 hafi margt sér til ágætis frá sjónarmiði flutningsmanns (E. A.), þá get eg ekki felt mig við hana. Þarf eg ekki að gera grein fyrir þessari skoðun minni, því að háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) hefir tekið af mér ómakið. En nær er mér að halda, að ef sú tillaga verður samþykt, þá verði síðari villan verri en hin fyrri. Breyt.till. á þskj. 247 fer eftir atkvæðagreiðslunni um hinar aðrar tillögur. Um breyt.till. á þskj. 244 liggur mér í litlu rúmi hver úrslitin verða.