29.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

75. mál, sparisjóðir

Einar Arnórsson:

Eg býst við, að háttv. samþingismaður minn (S. S.) hafi svarað sumu, sem eg þurfti að svara. En eg heyrði ekki alt, sem hann sagði, og má því vera, að andsvör mín verði sum endurtekningar.

Það er fullur misskilningur hjá háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.), að eg vilji ekkert eftirlit hafa með sparisjóðum. Þetta hefir hann líklega dregið af því, að eg og aðrir, þeir er andvígir voru eftirlitaákvæði stjórnarfrumv., komum eigi fram með breyt.till. við 2. umr. En það stafaði ekki af því, að vér vildum ekkert eftirlit hafa, heldur af því, að vér vissum ekki, hvað nefndin vildi í málinu, og einnig vildum vér sjá, hvernig frv. yrði eftir 2. umr.

Háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) hefir nú tínt til kosti þá, er honum þykja vera með því fyrirkomulagi um eftirlit, sem hann vill hafa, og ókostina á fyrirkomulagi því, sem við leggjum til, háttv. þm. Dal. (B. J.) og eg.

Háttv. þm. (Sv. B.) taldi það til í fyrstu, að einn fastur eftirlitamaður væri heppilegur sökum þess, að hann fengi svo víðtækt verksvið. Það er satt, að hann mundi fá vítt verksvið, því að verksvið hans mundi taka yfir alt landið. En eg býst við, að eins muni fara um þetta og hugtökin í rökfræðinni, er verða því innihaldsminni, sem þau ná yfir meira. Sparisjóðir hér á landi munu nú vera yfir 30 að tölu, og efa eg, að einn maður fái rannsakað þá alla árlega svo að í nokkru lagi væri.

Sami háttv. þm. (Sv. B.) sagði, að ekki væri gott samræmi í breyt.till. á þskj. 243, það er tekur til stjórnar sparisjóða. Óþarft er honum að vera hræddur um það, því að nefndin hefir nú tekið upp sömu hugsunina í breyt.till. á þskj. 259. Ef menn vilja ganga svo langt, að trúa ekki nokkrum manni á landinu fyrir sparisjóði, þá sýnist gagnslaust að vera að setja nokkurar reglur þar um.

Enn sagði sami háttv. þingm. (Sv. B.), að eg væri kominn í mótsögn við sjálfan mig, er eg legði nú til, að sparisjóðir greiði kostnaðinn við eftirlitið. En segja verður söguna alla. Það sjá allir, að með því fyrirkomulagi á eftirlitinu, sem gert er ráð fyrir á þskj. 243, getur ekki verið að ræða um mikinn kostnað. Eftirlitsmennirnir yrði í grend við sparisjóðina; ferðakostnaðurinn yrði því smáræði, sem engan sparisjóð mundi muna um.

Þá veik sami háttv. þm. (Sv. B.) að endurskoðun sparisjóðanna. Hann kallaði eftirlitsmennina, sem við leggjum til að hafa, endurskoðunar-aftaníhnýtinga, en ekki á það síður við um eftirlitsmann hans og félaga hans. Eftir því, sem eg skil 18. gr. frumvarpsins, er þar að eins að ræða um töluendurskoðun nánast, bókfærslu o. s. frv. Þar er og gert ráð fyrir því, að stjórnarráðið semji reglugerð fyrir sparisjóðina. Í þá reglugerð yrði auðvitað að eina tekin almenn ákvæði, t. d. að lán skuli veitt gegn þar tilteknum veðum. Eftirlitsmaður meiri hluta nefndarinnar getur dæmt um það, hvort bókhaldið er í lagi eða ekki; en meira getur hann ekki. Hann getur ekkert um það sagt, hvort veðin — og aðrar tryggingar alment sé góð eða ekki. En það getur eftirlitsmaðurinn eftir brtill. á þskj. 243.

Menn hefir greint á um það, hvort varasjóður skuli allur vera í verðbréfum eða eigi. Vilja sumir hafa, að hann sé í peningum. En þetta er ekki rétt, því að ef sparisjóðsstjórnum væri leyft það, þá mundi tilganginum ekki verða náð með því. Hver á að hafa eftirlit með því, að féð gangi ekki til viðskiftamanna sparisjóðanna sem útlánsfé og verði eigi tiltækt er þarf? Þá væri tryggara, að varasjóðurinn væri í verðbréfum eða innieign í bönkum.

Háttv. framsögumaður (G. H.) virtist vera á líku máli og eg um það, að þetta fé, sem um getur í 3. málsgr. 12. gr. og í 16. gr. sé fest fé. (Guðmundur Hannesson: Nei, nei). Mér skildist það svo, og að minsta kosti viðurkendi hv. umboðsmaður ráðherra að svo væri. (Klemens Jónsson: Það er rétt hermt). Þetta sem talað er um ófyrirsjáanlegar útborganir, gildir að eins um undantekningartilfelli. Það er ekki hægt að kalla það ófyrirsjáanlegt, þó að viðskiftamenn sparisjóðanna komi með sparisjóðsbækur sínar og krefjist fjár þess, er þeir eiga inni öðru máli væri að gegna, ef ábyrgðarmenn sjóðanna yrði gjaldþrota, og sjóðirnir yrði að borga fyrir það, eða ef það kæmi fyrir, að gjaldkerinn stryki burtu með kassann. Slíkt má kallast ófyrirsjáanlegt, en það verður líka, sem betur fer, alt af undantekning.

Menn deila mikið um það, hvort stefnubreyting hafi orðið hjá nefndinni í þessu máli. Mér stendur hjartanlega á sama um, hvernig á það er litið, og legg þar ekkert til málanna.

Háttv. þm. Ak. (M. Kr.) vil eg svara örfáum orðum. Hann segir, sem líka er rétt, að nýstofnaðir sparisjóðir geti aldrei átt varasjóði, svo að nokkru nemi. Eg er honum sammála um þetta. En eg vona, að hann geti verið mér sammála um það, að æskilegt væri, að slíkir sjóðir fengi sem fyrst varasjóði. Og það get eg ekki skilið, að hagkvæmasta leiðin til þess sé að binda fé sjóðanna að eins miklu leyti og gert er ráð fyrir í frumv. Annars hygg eg, að háttv. þm. Ak. geri of mikið úr því, sem nýstofnaðir sparisjóðir leggja í áhaldakaup. Eg er því reyndar ekki vel kunnugur, en eg hygg þó, að smásparisjóðir í sveitum rjúki ekki til að kaupa eldhelda járnskápa undir eins og þeir komast á laggirnar. Það væri náttúrlega gott og engan veginn óþarft, en eg efast samt sem áður um að þeir geri það allir. Sjóðirnir eyða vitanlega dálitlu í bækur, en þó verð eg að efast stórlega um, að það nemi alt af 80 kr. eins og háttv. þm. Ak. (M. Kr.) skýrði frá.

Háttv. þingm. Ak. (M. gr.) sagði, að sparisjóðina vantaði tilfinnanlega handbært fé og er mikið til í því. En eins og kunnugt er, hafa þeir margir hverir haft lítils háttar reikningalán í bönkum og hefir það gefist vel. Bankarnir hafa alls ekki tapað á þeim viðskiftum, heldur miklu fremur unnið. Finst mér þess vegna engin ástæða til að amast við því, að sparisjóðirnir fái að halda þeim réttindum, einkum ef þau eru bundin strangara skilyrði en tíðkast hefir, sem sé, að þeir megi því að eins lán taka, að öll stjórnin sé því samþykk. En slík reikningslán gæti orðið til þess að bæta úr skortinum á handbæru fé.

Háttv. sami þingmaður gat þess líka, út af ákvæðinu í 15. gr. frumv., að þegar varasjóður sparisjóða er orðinn 10% eða meira af innstæðufénu, þá megi verja fé úr sjóðnum til nytsamra fyrirtækja í almennings þarfir — að þetta gæti leitt til þess, að varasjóðurinn fari aldrei til muna upp úr 10% af innstæðufénu. Eg lít öðru vísi á þetta atriði. Það er aðgætandi, að til þess að verja megi fé sjóðanna á þennan hátt, þarf samþykki bæði sparisjóðsstjórnarinnar og stjórnarráðsins. Hvenær sem nokkur ástæða væri til að neita um þetta, mundi stjórnarráðið auðvitað gera það.

Sparisjóðsstjórnin yrði í hvert skifti að sýna nægileg skilríki fyrir því, að fé sjóðsins væri ekki í neina hættu lagt með þessari ráðstöfun. Eg gæti miklu fremur trúað því, að stjórnarráðið yrði »konservativt« í þessu efni, eins og líka rétt er — heldur en það gagnstæða. Það mundi aldrei leyfa sparisjóðsstjórninni að taka varasjóðinn og verja honum til hins og þessa, nema því þætti alveg útilokað, að sjóðnum væri nokkur fyrirsjáanleg hætta búin af því.