08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

113. mál, kosningar til Alþingis

Björn Hallsson:

Eg tók það fram við 1. umr. þessa máls, að eg teldi heppilegast að skifta frumv. þannig, að kjördæmaskipunin væri tekin út úr aðalfrumv. og flutt sem sérstakt frumv. ef þurfa þætti. Reyndar taldi eg ekki, að brýna nauðsyn bæri til þess að málið gengi fram nú þegar, sérstaklega vegna þess að eg leit svo á, að það hefði ekki fengið nægilegan undirbúning. Hins vegar bjóst eg við því, að nefndin mundi bera nýju kjördæmaskipunina fram í frumvarpsformi. Svo hefir þó ekki orðið, og get eg þá ekki sagt að eg sakni þess.

Þessi krafa um breytingu á kjördæmaskipuninni mun nálega eingöngu vera sprottin upp hér í Reykjavík, að minsta koati hefi eg ekki heyrt, að á henni hafi bólað annarsstaðar á landinu. Reykvíkingar hafa vitanlega nokkuð til síns máls, þar sem kjósendur hér eru margfalt fleiri en í nokkru öðru kjördæmi landsins, en þó að svo sé, þá er ekki þar með sagt, að þeir sé það verr settir í tilliti til þingsins heldur en aðrir, að hægt sé að segja að þeir sé óþolandi misrétti beittir. Eg hefi ekki séð það, hvorki á þessu þingi né áður, að mál Reykvíkinga hafi verið fyrir borð borin, enda eiga þeir mörg tök í þinginu þar sem fjöldi þingmanna annarra kjördæma á hér heimili. Eg get því ekki talið það glappaskot, þó að 7. gr. frv. verði feld, og er eg þar ekki á sama máli og háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.). (Sveinn Björnsson: Nei!).

Annars ætlaði eg ekki að fara að ræða lengi þessa hlið málsina, né að blanda mér í deilur háttv. meiri og minni hluta nefndarinnar.

Mér datt í hug að beina dálítilli fyrirspurn til nefndarinnar út af tveimur greinum í frumv., sem eg skil ekki nákvæmlega. Það er 41. gr. og 44. gr. Þær eru að vísu óbreyttar frá gildandi lögum, en eg hefi rekið mig á, að ákvæði þessara greina hafa valdið misskilningi. Greinarnar eru um innsigli kjörstjórnanna. Mér er ekki ljóst, hvort ætlast er til að hver kjörstjórn hafi sérstakt innsigli. Að minsta kosti hefi eg ekki orðið var við, að þeim hafi verið afhent það ásamt atkvæðakössunum. Samt sem áður hafa sumir skilið greinarnar svo, að í rauninni væri til þess ætlast, Aftur á móti hafa aðrir skilið þær svo, að það nægði, að nota innsigli einhvers einstaks manns úr kjörstjórninni, og þannig mun þessu ákvæði hafa víðast hvar verið framfylgt í framkvæmdinni. En þar sem ákvæðið er ekki vel ljóst, vildi eg biðja nefndina að skýra frá því, hvaða skilning hún leggur í það.

Þá vildi eg beina því til nefndarinnar, hvort henni virtist ekki heppilegra, að breyta til um daginn, sem í frumv. er ákveðinn sem kosningardagur til landsþingsins. Eg er hræddur um að Hálfdanarheimtur verði á kjósendum ef kosningin á að fara fram 1. ágúst. Eins og kunnugt er, stendur slátturinn þá yfir, og á þeim annatíma getur oft staðið svo á, að menn eigi ekki heimangengt, til dæmis ef svo vildi til, að þurkdagur væri, eftir langvarandi óþurka. Vill nefndin ekki athuga, hvort ekki er ástæða til að færa daginn annað hvort fram eða aftur? Ef ekki virðist tiltækilegt að færa hann aftur, þá væri betra en ekki, að færa hann fram t. d. til 1. júlí eða jafnvel fram í júní.

Að öðru leyti skal eg ekki tefja umr.