08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

72. mál, hlutafélagsbanki

Björn Kristjánsson:

Minni hlutinn þarf að miklu leyti ekki annað en vísa til álits skrifara nefndarinnar viðvíkjandi þeim ástæðum, sem mæla á móti því, að Íslandsbanka verði veittur þessi aukni seðlaútgáfuréttur. Hann felst fullkomlega á athugasemdir hv. 2. þm. Árn. (E. A.) um fyrirkomulag bankans. Samt hefir minni hlutinn gert stutt nefndarálit til bráðabirgða, sem í einu atriði segir meira en það, sem skrifari nefndarinnar hefir tekið fram.

Mér getur ekki annað sýnst, en að með breytingartillögum þeim, sem fram eru komnar, sé stungið inn litla fingrinum til þess að koma inn allri hendinni síðar eða á næsta þingi, svo að ekki þurfi að taka tillit til þeirra athugasemda, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir gert. En það mun verða erfitt að fá það bætt sem aflaga fer.

Sé þörf á auknum seðlaútgáfurétti fyrir Íslandsbanka, þá virðist mér þó frumv. efri deildar skynsamlegar samið, því að það byggir þó á hinum sama grundvelli og bygt var á við stofnun Íslandsbanka, nefnilega því, að hlutaféð, sem er hið eiginlega veltufé bankans, standi alt af í hlutfalli við seðlafúlgu þá, sem eigi er trygð með málmforða, þótt í því felist eigi út af fyrir sig nein full trygging né gulltrygging fyrir landið.

Stofnendur Íslandsbanka segja í fylgiskjali við þskj. 45 í Skjalaparti Alþtíð. 1901, bls. 211 um hlutaféð í sambandi við seðlaútgáfuréttinn:

»Við skoðum þess vegna að við getum eigi fallið frá því, þegar einkaleyfið er gefið, sé möguleiki fyrir því, að gefa út seðla eftir þörfum landsins, þó með þeim takmörkunum, að að hin ógulltrygða seðlaupphæð, aldrei megi nokkurn tíma yfirstíga hið fullinnborgaða veltufé«.

Það er þetta, sem háttv. efri deild hefir sniðið frumv. sitt eftir, og það er þetta, sem eitthvað verulegt vit er í, vegna þess að seðlar verða aldrei skoðaðir sem veltufé til útlána til lengri tíma eða til fyrirtækja.

Nú má sýna fram á, að seðlanna er alls engin þörf. Allir seðlar, sem leyft er að gefa út í landinu nú, nema 38 kr. 50 aura á hvert höfuð landsmanna, og það er meira en hægt er að búast við, að liggi í vösum manna. Þó að þjóðbankinn danski hafi vítt svið til að gefa út seðla, þá er, eins og hver maður veit, margfalt meiri verzlun og viðskifti að tiltölu í Danmörku heldur en hér á þessu landi og engin vöruskiftaverzlun þar rekin, en vöruskiftaverzlunin dregur úr þörfinni fyrir gjaldmiðil. Er því eðlilegt, að þar loði meira af seðlunum í umferð og ekki sízt fyrir það, að samkvæmt samningi eru seðlar Þjóðbankans einnig gjaldgengir bæði í Noregi og í Svíþjóð. Enn fremur ganga þeir í Þýzkalandi. Hverjum manni er því auðsætt, að þar hlýtur meira að vera úti af gjaldmiðli en hér getur verið.

Af þessum samanburði ætti það að vera ljóst, að hér er ekki skortur á verðlausum bréfum, sem koma í peninga stað, að eins innanlands. Og margt bendir á, að einmitt nú sé minni þörf á þeim, en vanalega gerist. Það gerir viðskiftateppan. Þegar viðskiftin eru eðlileg, gengur mikið af seðlunum út úr landinu til Danmerkur. Síðustu árin hafa gengið þangað af Landsbankaseðlunum um 400 þús. kr. á ári, og af Íslandsbankaseðlunum að líkindum ennþá meira. En vegna ófriðarhættunnar, sem nú er, verða viðskifti við útlönd miklu daufari, verða þessir seðlar sendir heim, og fara ekki út aftur á meðan á stríðinu stendur og liggja því kyrrir í landinu sjálfu og þar af leiðandi er miklu minni þörf á að auka seðlaútgáfuna nú, en annars mundi, ef öðruvís stæði á.

Á þinginu 1901 var talið, að það, sem Landsbankinn mætti mest gefa út af óinnleysanlegum seðlum væri 11/4 milj. Það var eigi talið hættuláust, að hann gæfi út meira. Menn álitu, að ekki væri þörf á meira af seðlum til innanlands viðskifta. Nú mætti segja, að þörf væri á 1½ milj. kr., því að þingið 1901 bygði á því að seðlarnir gengi ekki til erlendra banka eins og nú á sér stað. Slík viðskifti vóru þá ekki komin á. En í stað þess að láta það nægja að leyfa að gefa út 1¼ miljón í óinnleysanlegum seðlum, höfum vér nú þegar 3¼ milj. af seðlum, sem allir eru gerðir óinnleysanlegir. Svo langt hefir þingið gengið. Og við þetta á síðan að bæta 700 þús. kr. í óinnleysanlegum seðlum. Finst nú ekki þinginu nóg að láta sitja við þessa 3¼ milj., þegar sýnt hefir verið fram á, að seðlafúlgan í landinu nemur kr. 38 og 50 aur. á hvert höfuð í landinu, miklu meira en gerist nokkursstaðar annarastaðar, er eg til þekki. Það er ekki ráðlegt fyrir þingið að dragast með hverjum vindblæ, hvaðan svo sem hann kemur og hvert sem hann ber. Tímarnir eru þeir, nú sem stendur, að menn verða snortnir af ástandinu og gæta því síður að sér. En það sem mest á ríður, er að hugsa þetta mál með ró og stillingu, eins og ekkert hafi í skorist.

Hér á dögunum var frv. á ferðinni þess efnis að leysa Íslandsbanka undan skyldunni að innleysa seðla sína, og að heimila stjórninni að takmarka greiðslur bankanna og sparisjóðanna í landinu.

Eg var meðflutningsmaður að þessu frv. og eg og minni hl. greiddi því atkvæði. Af hverju ? Einungis af því, að vér álitum það þarft. Vér álitum það bæði stoð fyrir bankann og stoð fyrir landið að gera það. Það væri þess vegna nærgöngult, ef nokkur nefndarmaðurinn færi að væna mig um, að eg væri á móti seðlaaukningu Íslandsbanka af hlutdrægni, þar sem eg fyrir nokkrum dögum hefi sýnt, að eg vil vera stofnun þessari að liði. Því að það er auðvitað, að bankinn hefði ekki getað staðið, í öllu falli ekki lengi, ef hann hefði ekki verið leystur undan skyldunni, að innleysa seðlana. Og hvaða hag gæti eg haft af því persónulega, að seðlar Íslandsbanka væri ekki auknir? Hvaða hag, annan en þann, eins og æfinlega, að auka mér mótstöðumenn, með því að halda fast við skoðun mína? Hvað annað en að tryggja mér vissan ársforða af ofsóknum Lögréttu, ársforða af rógi um mig og Landsbankann ? Það er það eina, sem eg gæti haft upp úr því.

Nei, hér er ekki þörf á verðlausum pappírum. Það sem þörf er á er vörur og gull, en seðlarnir veita hvorugt. — Hvað mundi það hjálpa bjargráðanefndinni, þó að bætt væri við seðlana ? Landið er jafn peningalaust eftir sem áður, því að þeir eru ekki annað en ávísun á peninga, sem nú sem stendur eru ekki til. Eg hefi orðið var við það þessa dagana, að menn halda endilega, að ef bætt verður við seðlana, þá verði það til þess að skapa peningaveltu í landinu.

Eg vil benda á, að þetta er ekki svo. Seðlarnir veita ekki veltufé, hvorki til lána né til stuðnings fyrirtækja. Því fer mjög fjarri. Það sést bezt á því, að ekki er meira í umferð meiri hluta ársins, en sem svarar helming af þeim seðlum, sem nú er leyft að gefa út. Af því að seðlarnir eru ekki veltufé, heldur ávísun á borgun, streyma þeir inn í bankana aftur. Síðustu 4 árin hafa þeir seðlar Íslandsbanka, sem í umferð hafa verið, komist niður í 568,800 kr. Það var árið 1910, eins og sést á skýrslu þeirri, sem fylgir nefndaráliti minni hl. Það er þess vegna rangt álit, að skoða seðlana sem peninga; það eru þeir ekki, heldur að eins ávísun á fé, sem síðar verður greitt út á þá, ávísun á gull bankans, sem gefur þá út og ber þá fyrir sig í síað þess að þurfa altaf að hafa reiðupeninga í höndum. Seðlarnir ganga manna á milli lengri eða skemri tíma og ganga síðan aftur til bankans, sem hefir gefið þá út, þar sem þeir eru annaðhvort innleystir með gullmynt eða þeir ganga inn í önnur viðskifti. Það hæsta, sem má skoða sem veltufé af seðlunum, er það sem minst hefir verið úti, þessar 568,800 kr. árið 1910, en annað ekki. Það er einungis aktíuféð, sem skapar hið eiginlega veltu fé og það hefir háttv. Ed. séð. Frá því hefði nefndin ekki átt að víkja.

Það er næsta skoplegt, að þingið skuli vera að ræða um að auka seðlaútgáfuna, einmitt nú á þessum tíma, þegar ekkert er gjaldgengt nema gull. Seðlarnir koma því að engum notum til þess að kaupa fyrir þær nauðsynjar, sem landið þarf. Þeir bjarga því ekki landinu úr þeim vandræðum, sem það er í, eða kann að lenda í út úr ófriðnum. Og þeir verða heldur ekki til þess að styrkja lánstraust landsins út á við, það er síður en svo. Þetta sem hér á að fara að gera, er þá ekkert annað en gönuhlaup, og slík gönuhlaup hafa verið nógu mörg og tíð nú undanfarið. Á þau er ekki bætandi.

Því hefir verið skotið fram, að Danir hafi þessa dagana aukið seðlaforða Þjóðbankans um 25 milj. Eg veit ekki hvort nokkur flugufótur er fyrir þessu.

Ef vér samþykkjum þetta frv., sem fyrir liggur, þá koma 46 kr. á hvert höfuð landsmanna, og það er sýnilega óþarft og jafnvel hættulegt.

Háttv. skrifari meiri hl. nefndarinnar (E. A.) hefir látið í ljós, að ekki hafi verið nægilega trygt eftirlit með Íslandsbanka, frá stofnun hans. Þetta er að vissu leyti rétt. Eg skal reyndar ekkert segja um við þessa umræðu, hvernig eftirlitið hefir verið, en löggjöf bankans hefir ekki séð honum fyrir nægilega tryggu eftirliti, og eiginlega ekki séð fyrir eftirliti með honum í neinni mynd. Þingið 1901 samþykti að veita Íslandsbanka heimild til að gefa út þessa ákveðnu seðlafúlgu, og eiginlega vóru lögin frá 1901 í fullu lagi. En það var eitt, sem þingið gerði ekki, og það var að ákveða eftirlitið með bankanum, heldur var það falið stjórninni. Og hún gjörði það svo úr garði, og svo frábrugðið því, sem annarsstaðar á sér stað, að það má telja alveg ótækt, því að í því er engin trygging fólgin, hvorki í augum útlendinga né innlendra manna.

Eg vil einungis benda á eitt atriði sem dæmi:

Árið 1901 var svo ákveðið, að gullforði bankans skyldi geymast á Íslandi. Það var ónákvæmlega til tekið, en var skilið svo, að hann ætti að vera í Rvík, enda var það eðlilegt, því að án þess gat stjórnin ekkert eftirlit haft með honum. En viti menn, samkvæmt lagabreytingunni árið 1905, má gullforðinn vera á fjórum landshornunum, Reykjavík, Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði. Hvernig á nú stjórnin að geta haft nokkurt eftirlit með þessu, þegar fyrirkomu. lagið er þannig? Henni er það öldungis ómögulegt, jafnvel þó að hún væri öll af vilja gerð. Lögin hafa því verið stórskemd að þessu leyti frá því 1901. Eigendur bankana hafa skotið sér undan eftirlitinu, og eg fullyrði, að þeir hafa gert það Íslandsbanka í stórskaða. Þessu verður nauðsynlega að kippa í lag, en það verður aldrei gert, nema bankinn eigi undir högg að sækja hjá þinginu. Það verður ekki gjört, ef þingið lætur undan hverjum vindblæ, sem andar á það, og lætur alt eftir bankanum, sem hann fer fram á. Það sem áreiðanlega þarf, er fullkomin og nákvæm rannsókn á öllum hag bankana. Og eg legg áherzlu á að henni verði komið á, áður en seðlaútgáfuréttur bankans verður aukinn, og áður en landið tekur á sig meiri ábyrgð á honum en það hefir. (Hannes Hafstein: Rannsókn, eins og á Landabankanum?). Það hljómar ef til vill ekki vel þetta orð: rannsókn, því að það var á margra vörum nú fyrir nokkrum árum, en það, sem eg á við með, því, er það sem á útlendu máli er nefnt »kritisk revision«. Mér verður, ef að líkindum lætur, brugðið um hlutdrægni, þar sem eg sting upp á þessu, en eg gjöri það einungis fyrir það, að eg álít það stóra nauðsyn, og bæði landinu og bankanum fyrir beztu. Og eg vil benda á, að þetta er ekki ný skoðun hjá mér nú, því að á þinginu 1909 er breytingin á lögunum um stofnun Landabanka var samin, stakk eg upp á, að rannsókn á hag Landsbankans væri framkvæmd 5. hvert ár (Kritisk Revision). Þingið lagði lítið upp úr þessu, og eg fekk því ekki fram komið. Eg minnist á þetta til þess að sýna, að það er ekki í fyrsta skifti í kvöld, að mér dettur í hug að slík rannsókn sé nauðsynleg. Eg hefi þvert á móti lengi haft þá skoðun, að það væri hverri bankastjórn mikill styrkur að eiga von á nákvæmri rannsókn við og við. Eg vildi, að slík rannsókn hvíldi á Landsbankanum, eins og eg stakk sjálfur upp á, því að hún mundi verða til þess að tryggja traust á honum, bæði inn á við og ekki síður út á við.

Háttv. skrifari meiri hlutans (E. A.) skýrði frá, að meiri hlutinn legði til að bankinn borgaði landinu 2% af þeim seðlum, sem ekki væri trygðir með gulli. Hvers vegna 2%? Því ekki 5%–6% eins og alment er annarsstaðar. Víðast hvar annarsstaðar er það ákveðið, hvað mest megi hafa úti af seðlum, miðað við hvað mikill gjaldmiðill er í umferð í landinu samkvæmt reynslu. Seðlaupphæðin er svo skömtuð eftir því. Það dettur engu landi í hug að hafa allan gjaldmiðilinn í seðlum, heldur er altaf séð um, að ásamt þeim sé mikið af gulli í umferð, að gullið hafi rúm í landinu. Þess vegna var það, að þegar stjórnin í Danmörku 1907 leyfði Þjóðbankanum að gefa meira út á gullforðann, en það sem hann í rauninni hafði rétt til, þá tók hún 5% af seðlaviðbótinni sem ekki var fullkomlega gulltrygð Eins er þetta í Þýzkalandi, þar tekur ríkið 5% af ógulltrygðum seðlum, sem gefnir eru út umfram það, sem ákveðið hefir verið að gefa mætti út undir venjulegum kringumstæðum. Af hverju ? Af því að ríkið vill styðja að því, að bankarnir hafi ekki meira úti af seðlum heldur en það sjálft ákveður, að megi vera úti undir venjulegum kringumstæðum, og ennfremur til þess að tryggja það, að altaf sé gull í umferð í landinu jafnframt seðlunum. Og ekki sízt til þess að takmarka, að menn leggi fé í óviss fyrirtæki, sem svo hætt er við þegar vítt svið er opnað til þess að búa til peninga, með því að skrifa nafn sitt undir verðlausa seðla. Ef vér hefðum hugsað um þetta, þá stæðum vér ekki eins og í dag gulllausir uppi í landinu.

Nú skal eg víkja að því, hvað eg álít að gera ætti. Það er vilji allra landsmanna, sem ekki eru viðriðnir Íslandsbanka, að landið fái á sínum tíma seðlaútgáfuréttinn aftur. Eg verð þess vegna að álíta, að ekki sé rétt að ganga inn á að auka seðlaútgáfu bankans sjálfs fram úr því sem orðið er. Því að þó að vér göngum inn á till. háttv. Ed. nú, þá þarf enginn að ætla, að við það verði látið sitja nema rétt í bili; eftir svo sem tvö ár kemur beiðni frá bankanum um meira. Og ef vér hugsum oss ekki að láta bankann hafa eins og hann biður um, þá verðum vér að grípa til annara ráða. Eg hefi hugsað mér að landið sjálft gæfi út svo mikið af seðlum sem þörf er á, og að það lánaði síðan báðum bönkunum, jafnmikið hvorum — svo að eg geri ekki upp á milli þeirra — einkum á þeim tímum, sem þeir hafa mesta þörf á seðlum. Fyrir þetta lán ætti landið að taka 4% rentur eða svo og það væri ódýrara fyrir báða bankana að taka þetta lán hjá landssjóði, heldur en að taka lán hjá erlendum bönkum. En á meðan verið er að koma þessu í kring ætti Íslandsbanki að geta tekið bráðabirgðalán erlendis svo sem 2 mánaða tíma á árinu, er mestan gjaldmiðil þarf, ef inneign hans hrekkur ekki, alveg eins og Landsbankinn hefir orðið að gera árlega frá stofnun hans. Renturnar af seðlunum ætti síðan að leggjast í sjóð, sem safnaðist upp árlega sem gullforði fyrir landssjóðs seðlana, sem að 20 árum liðnum mundi vera orðinn nægur gullforði fyrir landið, er það næði aftur seðlaútgáfuréttinum. Og sú leið er trygg leið til þess að landið geti náð aftar þessum rétti. En engin trygging fyrir, að landið nái honum nokkurntíma aftur, ef það fer að bæta við seðlaútgáfurétt Íslandsbanka. Sú leiðin er ólíku hyggilegri til þess að landið geti náð seðlunum aftur. En það er sjálfsagt að styðja að því, að Íslandsbanki auki sitt hlutafé, enda hefir þinginu aldrei dottið í hug að hafa neitt á móti því. 1907 var honum slindrulaust veitt leyfi til að auka hlutafé sitt um 2 miljónir. Á hluthafafundi 1908 var svo ákveðið að auka skyldi hlutaféð um 2 miljónir, en eftir því sem fyrrverandi bankastjóri, sem situr hér við hliðina á mér, segir, var það ekki gert vegna þess, að dýrtíð kom í veginu. Eg vona, að alþingi haldi fast við það, að bankinn auki hlutafé sitt, og það því heldur sem hann hefir orðið fyrir tjóni, svo að hlutabréf hans standa nú ekki nema í um 80%. Þegar þingið veitir seðlaútgáfurétt gegn því að víst hlutafé sé til staðar, þá er það öldungis eins og þegar hlutabréf er sett að veði fyrir láni. Það verður að borga af láninu ef hlutabréfin lækka í verði.

Eg skal nú ekki þreyta menn á lengri ræðu í þetta sinn. Eg hefi sagt þessi orð af engri óvild við Íslandabanka. Mér er vel við hann, eins og eg hefi sýnt fyrr og síðar hér á þinginu, og eg vil, að tveir bankar lifi.

Eg vil að endingu bæta því við, ef ekki semst við Íslandsbanka um útgáfu seðla, þá væri rétt að landið gæfi út þessa seðla og stjórnin leitaði þess við Íslandsbanka, hvort hann vildi ekki selja hlutina fyrir sannvirði, að viðbættu því, sem hluthafarnir vildi reikna sér fyrir seðlaútgáfurétt ónotaðan í 20 ár. Eg er viss um, að hlutirnir yrði þá borgaðir að fullu, svo að hluthafarnir biði ekki neitt tjón. Sennilega yrði það bezta lausnin.