01.07.1914
Efri deild: 1. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (7)

Deildarsetning efri deildar

Guðmundur Björnsson:

Það er rjett að þetta hefir komið fyrir áður, að þingmann hefir vantað þingsetningardaginn, en jeg hygg að aldrei fyr hafi vantað þrjá þingmenn í þessari fámennu deild. Mjer finst það augljós kurteisisskylda gagnvart þessum þingmönnum, að bíða þess að þeir geti tekið þátt í kosningu embættismanna. Fundi er einatt frestað frá einum degi til annars og jeg get ekki sjeð hvers vegna það má ekki nú. En jeg vildi leyfa mjer að víkja því að háttv. frummælanda, hvort eigi mætti kjósa forseta í dag, en fresta öðrum kosningum til morguns. Það getur verið bagalegt, eins og tekið hefir verið fram, ef ekki er hægt að ráða starfsmenn þingsins fyr en annað kveld. Jeg færi þetta í tal vegna þess að mjer finst að mestu sje aflokið, þegar búið er að kjósa forseta. Og jeg hefi fulla trú á því, að forsetakosningin muni ekki valda misklíð, og ekki þörf að fresta henni.