10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

72. mál, hlutafélagsbanki

Benedikt Sveinsson:

.Eg ætla ekki að fara að gefa mig út í orrahríðina milli keppinautanna, bankastjóra Landsbankans og fyrrverandi og tilvonandi bankastjóra Íslandsbanka.

Eg ætla aðeins að lýsa undrun minni á nefndarálitinu, sem kom frá nefndinni í hlutabankalögunum. Það er einkennilegt við það, að 5 menn af 7, sem í nefndinni sátu, telja ekki gerlegt að veita Íslandsbanka meira lánatraust, nema breytt sé skipulagi bankans á ýmsan veg; og það er ekki svo lítið, sem þeir vilja breyta. Þeir telja 10 liði, sem þeir telja sjálfsagt að breytt sé, ef lána eigi bankanum meira. Þegar eg les nefndarálitið, þá sé eg að meiri hlutinn leggur loks til að veita bankanum 700 þús. kr. Menn hlýtur að reka í rogastanz af því, hve fljótur meiri hl. er að falla frá því, sem hann leggur til í nefndarálitinu. Þetta á víst að heita að vera til þess, að vernda menn frá peningaskorti, og því er haldið fram, að þetta verði ekki framlengt. En hvar er tryggingin fyrir því, að það verði ekki framlengt? Slíkar stofnanir sem Íslandsbanki, færa sig frekar upp á skaftið, en að þær skili aftur þeim réttindum, sem þær hafa fengið. Ef það er rétt, sem nefndin heldur fram, að nauðsyn beri til að breyta fyrirkomulagi bankans í 10 atriðum, væri þá ekki ástæða til að breyta því áður en seðlaútgáfurétturinn er aukinn? Menn geta borið því fyrir, að það sé ekki tími til þess. Mér finst ekki hundrað í hættunni, þó að þingið yrði að biða 2 til 3 daga til þess að fá slíkt nauðsynjamál samþykt. Það er ekki sjáanlegt, að þinginu verði slitið á morgun eða hinn daginn hvort sem er, fyrst stjórnarskrármálið er ekki komið nema til 2. umræðu. Svo er gersamlega óséð, hvort Danmörk losnar við ófriðinn eða ekki, og mér finst ekki rétt af þinginu að stökkva heim, áður en séð er, hvort sjálfstæði landsins verður í hættu.

Það er síður en svo að eg vilji þröngva kosti Íslandsbanka. En eg vil sporna við því, að veittur sé svona mikill réttur gegn óhæfilega lítilli tryggingu. — Það er öllum mönnum vitanlegt, að hagur bankans er ekki glæsilegur nú sem stendur. Bankinn hefir orðið fyrir geisimiklum hnekki nú upp á síðkastið, sérstaklega fyrir viðskifti sín við 2 útlend félög. Hlutabréf hans hafa fallið um alt að 20%. Mér finst ekki gætilegt að veita bankanum svo mikið fé, sem hér er farið fram á, þegar þannig stendur á. Það getur heldur ekki verið brýn þörf á slíku, þar sem komin er yfirlýsing frá Landsbankastjóranum um, að Íslandsbanki geti fengið nægilegt fé í haust hjá Landsb., til þess að bæta úr þörfinni. Í annan stað get eg bent á, að það er ekki víst að bankinn hafi sem stendur gott af að fá aukinn seðlaútgáfurétt. Það er ekki ólíklegt, að fólk missi traust á bankanum og vilji síður eiga seðla hans, þegar búið er að gjöra þá óinnleysanlega og þar að auki gefa út mikið í viðbót.

Hvers vegna bankinn hefir hætt að auglýsa mán.reikninga sína hér á Íslandi þetta ár, en aðeins auglýst þá í erl. blaði, er torskilið; en þar sem hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að hluthafar bankans væri flestir í útlöndum, og því væri reikningarnir auglýstir þar, en ekki hér, þá finst mér það koma illa heim við það, sem sami háttv. þm. sagði, að bankinn væri að miklu leyti innlend eign. Ef svo er, sem hann sagði, að 700,000 kr. af hlutafé bankans væri innlend eign, hví fá þá ekki hinir íslenzku hluthafar einnig að sjá, hvernig hagur bankans stendur?

Úr því að ekki er farið að tillögu meiri hluta, nefndarinnar og fyrirkomulagi bankans breytt mikið, þá sé eg ekki annað ráð vænna en að láta þetta frumvarp bíða næsta þings, og vil því leggja til að málinu sé nú vísað til stjórnarinnar, til þess að hún geti athugað það vel í samráði við hluthafa og aðra.