18.07.1914
Neðri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

7. mál, girðingar

Einar Arnórsson:

Það er ræða háttv. þm. Ak. (M. Kr.), sem eg vildi svara örfáum orðum. Honum þykir það miður, að ætlast er til að slept sé úr 8. gr. girðingalaganna því ákvæði, að sá, sem girðingu verður að þola af öðrum, skuli ekki skyldur til að greiða meira en helming af kostnaðinum. Eg held að það geri ekkert til þó að þessu sé slept. Það liggur sem sé undir mati úttektarmanna, hvers virði girðingin er fyrir hann, og eg býst ekki við, að í framkvæmdinni verði sá, er girðingu þolir, látinn nokkru sinni greiða meira en helming kostnaðarins. Eg álít, að frv. ráði bót á óglöggleik 8. gr. laganna að því leyti, að af henni sést ekki glögt, á hverja eigi að jafna girðingarkostnaðinum.

Viðvíkjandi breyt.till. get eg verið á líku máli og háttv. þm. Ak. (M. Kr.). Eg álít það varasamt, að ákveða að leiguliði skuli borga árlega 2% af girðingarkostnaðinum. Þó mun eg ekki gera það að kappsmáli. En hitt, að kauptún skuli alt af greiða helming girðingarkostnaðar, þykir mér handahófsregla, sem hætt er við að komi ranglátlega niður í einstökum tilfellum. Það mun vera réttast að leggja þetta atriði undir mat úttektarmanna, eina og hitt.