08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Skúli Thoroddsen:

Eins og hv. deildarmönnum mun vera kunnugt, var talsverður ágreiningur um það hér í deildinni á síðasta þingi, hvort frv. um bjargráðasjóð skyldi ná fram að ganga eða ekki. Mér, og fleiri þingmönnum, þótti óviðkunnanlegt, að dembt væri slíkum lögum á þjóðina, að henni fornspurðri, lögum sem höfðu í för með sér aukin útgjöld að mun.

Mótspyrna mín og ýmsra annara hafði þá að vísu þau áhrif, að málið tók töluverðum stakkaskiftum til batnaðar, mið að við það, sem áður var. En meira varð eigi áunnið, og málið var borið fram, sem aldrei skyldi þó verið hafa.

Það er því ekki nema eðlileg afleiðing þess, að málið hafði ekki verið borið undir þjóðina, að heyrst hafa þegar ýmsar raddir, sem óska breytinga á lögunum.

Á fundi í mínu kjördæmi, í Norður-Ísafjarðarsýslu, var það skoðun manna, að réttast væri að þingið breytti lögunum í heimildarlög, og gæti þeir þá hagnýtt þau sem vildi, en hinir ekki.

Af þingmálafundargjörðum úr kjördæmunum má sjá, að málið hefir víðar borið á góma, og tel eg því nauðsynlegt, að það verði íhugað sem vandlegast í nefnd, og vil eg því leyfa mér að stinga upp á 7 manna nefnd í málið, að umræðu þessari lokinni.