08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Bjarni Jónsson:

Eg tek í sama streng sem háttv. þm. S.-Þing. (P. J.). Sumum hreppum sömu sýslu er hættara við slysum eða hallærum en öðrum hreppum sýslunnar og því verða þeir hreppar, sem betur eru settir, að miðla hinum, sem verr eru settir. En sama á einnig við um sýslurnar. Margar sýslur eru svo settar, að þær geta ekki komist í þröng. Sýslurnar, sem næst eru Reykjavík, hafa góðar samgöngur og eru betur settar en útkjálkasýslurnar. Það er afskaplegt, að þær sýslur, sem bezt eru settar, safni fé í sjóð, en hinar búi við skort. Síðastliðið vor hefir sýnt það, að illa sat á þeim mönnum að kalla oss hallæriskrákur, þá er þetta mál studdum í fyrra. Náttúran sjálf hefir gert oss þá áminning, að vér mættum sjá, að heimildarlög eru sama sem engin lög.

Eg skal ekki tala nánara um málið nú, en mun síðar koma fram með brtill. við 9. gr. laganna, sem kippa þeim í rétt horf, gera sjóðinn að bjargráðasjóði alls landsins.