20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Sigurður Sigurðsson:

Það má vitanlega alt af deila um það, hvort slíkar breytingar sem þessi sé tímabærar eða ekki. En það má eg fullyrða, að þetta frumvarp en yfirleitt að vilja almennings í landinu. Frá því sjónarmiði er ekkert á móti því að samþykkja frumvarpið með þeim breytingum, sem nefndin stingur upp á. Að vísu geta verið skiftar skoðanir á málinu í heild sinni, og kom það jafnvel fram í nefndinni, að sumir vóru andvígir grundvelli laganna. En það efast eg um, að mikið verði unnið með því að leita álits manna um málið. Ef menn eru óánægðir með einhver atriði laganna, mun það koma fram á þingmálafundum á næstu árum. En ef sú breyting, sem í frumvarpinu felst, verður samþykt, hygg eg, að ekki verði margar háværar raddir á móti bjargráðasjóðslögunum frá hálfu þeirra, sem þeim lögum eru vinveittir. Hins vegar má auðvitað gera ráð fyrir mótblæstri frá þeim mönnum, sem helzt vilja koma lögunum fyrir kattarnef, eða breyta þeim í heimildarlög, sem er alveg það sama.

Mín ósk er sú, að þessi rökstudda dagskrá verði feld, en frumv. samþykt. Þessi rökstudda dagskrá háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) kemur mér einnig nokkuð skrítilega fyrir sjónir, þar sem háttv. þm. þó virtist telja frumv. til bóta, og miða að því að auka vinsældir bjargráðasjóðslaganna.