20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Þórarinn Benediktsson :

Eg skal ekki lengja umræðurnar mikið, en mig langar til að segja fáein orð um málið frá mínu sjónarmiði.

Eg vil þá lýsa yfir því, að eg hallast eindregið að skoðun minni hluta nefndarinnar í málinu. Fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að þessi lög eru enn svo ung, að ekki verður sagt, að nein reynsla, hvorki ill né góð, sé fengin fyrir því, hvernig þau muni gefast. Eina og tekið hefir verið fram, hafa heyrst raddir frá þjóðinni um breytingar á þessum lögum. Það hafa heyrst raddir um að breyta þeim á þann hátt, sem þetta frumv. fer fram á. Það hafa heyrst raddir um að breyta þeim í heimildarlög. Og loks hafa heyrst raddir um að afnema þau með öllu. Þessar sundurleitu raddir benda ótvírætt til þess, að menn eru ekki búnir að átta sig á því, að hverju leyti bjargráðasjóðslögunum er einkum ábótavant. Eg sé enga ástæðu til að svo stöddu að taka eina af þessum röddum fram yfir aðra, meðan allir játa, að engin reynsla sé fengin fyrir því, hvort lögin eins og þau eru, geta gert það gagn, sem þeim er ætlað að gera.

Eins og allir vita, er tilgangurinn með bjargráðasjóðalögunum frá 1913 sá, að koma í veg fyrir eða afstýra hallæri. En þetta frumv., sem hér liggur fyrir, finst mér að muni geta orðið til þess að spilla fyrir því, að þeim tilgangi verði náð. Eg sé ekki annað, en að þessi smáskifting á bjargráðasjóðnum hljóti að miða til þess, að hann geti ekki orðið nema að litlu eða óverulegu gagni. Meðan sjóðurinn er lítill, yrði það ekki nema örlítil fjárupphæð, sem yrði séreign hvers hrepps, svo lítil, að með henni væri svo sem ekkert hægt að gera til þess að koma í veg fyrir hallæri. En það held eg að sé fyrsta og fremsta stefnan með þessum sjóði, miklu fremur en það, að veita hjálp þegar hallæri er dunið yfir.

Eina og tekið hefir verið fram, er það mjög misjafnt, hvernig hinar ýmsu sveitir eru settar með tilliti til hallæris. Þannig er það á Austurlandi, að sumar sveitir eru svo settar, að mjög lítil líkindi eru til, að hallæri geti komið þar fyrir vegna harðinda einna, nema hafís umkringi landið og banni samgöngur. Aftur á móti eru aðrar sveitir settar þannig, að þar getur hallæri orsakast af harðindum næstum hvenær sem er. Mér finst þess vegna, að það miði alveg í rétta átt, að hver sýsla eigi sameiginlegan sjóð til þess að verja þeim sveitum til bjargar, þar sem mest er harðindahættan. Annars hefi eg það helzt að setja út á bjargráðasjóðslögin, að mér finst ekki séð nægilega vel fyrir því, að kornforði sé trygður þeim svæðum, þar sem mest er harðindahættan. En eg ætlast til að sýslunefndir bæti úr þeim brestum laganna, Svo sem auðið er með því fé, sem þær smámsaman fá til umráða.

Eg skal svo ekki orðlengja þetta frekara. Eg stóð að eins upp til þess að lýsa þessari skoðun minni.