20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Sigurður Sigurðsson :

Jafnvel þó að mér beri ekki skylda til að halda uppi vörn fyrir meiri hluta nefndarinnar í þessu máli, ætla eg þó að leyfa mér að bæta fáeinum orðum við það, sem eg sagði áðan.

Í nefndinni eiga sæti 7 menn, og þessir 7 menn eru meira og minna sinn af hverju landshorni, en eftir því sem mér skildist, voru þeir allir á þeirri skoðun, að þær breytingar, sem hér ræðir um, væri þegar á alt er litið til bóta.

Um leið og eg þakka háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) fyrir þann stuðning, sem hann veitti málinu, get eg ekki varist að láta í ljós þá skoðun mína, að Múlasýsluþingmennirnir sé meira og minna á móti lögunum í heild sinni.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (Þ. B.) sagði, að þar sem óánægja væri á meðal landsmanna út af þessum lögum og heyrst hefði ýmsar raddir um breytingar á þeim, þá væri ekki ástæða til að taka eina röddina fram yfir aðra. En hann verður að gæta að því, að meiri hluti nefndarinnar er vinveittur lögunum og þess vegna er ekki hægt að ætlast til, að hann taki til greina það sem fer í þá átt að afnema lögin með öllu eða að gera þau þýðingarlaus. Meiri hlutinn hlaut að taka það eitt til greina, sem miðar til þess að bæta lögin og að auka vinsældir þeirra. Og hann er ekki í vafa um, að breyting sú, sem hér er farið fram á, miðar í þá átt.

Það fæ eg ekki séð, að þessi breyting veiki eða minki gildi sjóðsins eða gagnsemi hans. Um það má náttúrlega deila, hvort heppilegra sé, að tillög hreppanna sé séreign þeirra hvers um sig eða sýslunnar í heild sinni. En eg hygg þó, að ef landsmenn væri spurðir að þessu, þá mundi meiri hlutinn fá mikið meðhald um, að réttara sé að hrepparnir eigi sjálfir tillög sín. Eg kannast við, að hitt lýtur meira að því að styrkja samvinnu og samhjálp. En þessari samvinnu og samhjálp mætti misbeita á þann veg, að það gæti valdið óánægju og komið af stað ósamlyndi á milli einstakra hreppa. — Þegar einhver hreppur, sem er lítils megnugur í þessu tilliti verður fyrir skakkafalli og hans hluti í sjóðnum nægir ekki honum til bjargar, þá getur hann gripið til sameiginlega sjóðsins, sem öllum er jafnt opinn — en það er tillagið frá landsjóði. Ef einhver hreppur er svo illa á vegi staddur með sinn sjóð, að hann getur ekki bjargað sér áfram með honum, þá hefir hann rétt til hjálpar úr þessum sameiginlega sjóði. Frá þessu sjónarmiði er því ekki mikil hætta á, að einstakir hreppar verði illa úti, þó að þessi breyting á lögunum verði samþykt.

Hvernig, sem eg lít á málið, fæ eg ekki séð annað en að þessi breyting sé til bóta og miði til þess að auka lögunum vinsældir. Eg vona þess vegna að frumvarpið verði samþykt með þeim breytingum, sem meiri hlutinn hefir stungið upp á, en að rökstudda dagskráin verði feld.