20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Björn Hallsson:

Það er er einungis stutt athugasemd, sem eg vildi gera. Okkur samþingismönnunum kemur ekki saman í þessu máli, fremur en í sumu öðru.

Háttv. samþingismaður minn (J. J.) talaði mikið um, að ekki sé heppilegt að löggjafarþingið ráðist á vasa einstaklinganna. Um það get eg verið honum samdóma, að það þurfi að gerast með gætni. En um það snúast ekki þær breytingar á Bjargráðasjóðslögunum, sem hér liggja fyrir.

Eðlilegt var, að óánægja rísi út af lögunum, því að þau hafa aukin útgjöld fyrir sveitarsjóðina í för með sér, en flestum finst þeir hafa nógar byrðar að bera. En sú hugsun, sem grundvöllur laganna er bygður á, er góð. Mér virðist ekki liggja á að gera þessa breytingu á lögunum nú, það má altaf gera. Eg get að vísu játað það, að ekki sé í mikið ráðist þótt þessi breyting sé gerð, en hitt veit eg ekki, hvort menn verða ánægðari með lögin fyrir því. Raddir almennings um þetta efni eru svo mismunandi, og meðan menn nálgast ekki skoðanir hvers annars meira en raun er á, finst mér ekki rétt að hrapa að breytingunni.

Háttv., síðasti ræðumaður (S. S.) sagði, að eg hefði sagt, að ekki væri rétt að taka eina röddina fram yfir aðra. (Sig. urður Sigurðsson: Eg tók það upp eftir háttv. 1. þm. S.-Múl. (Þ. B.)). Þá hefi ég misheyrt og þarf ekki að svara því. Mér finst það einmitt rétt, úr því að raddir almennings eru svo mismunandi og skoðanir á þessu máli svo sundurleitar, að ein sýslan vill þetta en önnur hitt, að menn gefi sér góðan tíma og reyni að vinza úr það, sem nýtilegast er í tillögum manna, hvort sem það leiðir nú til þess, að lögin verði alveg lögð á hilluna eða þeim breytt í hagkvæmara horf.