20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Framsm. (Guðm. Hannesson):

Eg efast ekki um, að allir geti tekið undir það með háttv. þm. Dal. (B. J.), að á pappírnum færri sjálfsagt bezt á að landið ætti sjóðinn í heild sinni. En það fer ekki saman, hvað raunhæft er í lífinu og hvað fallegt er á pappírnum. Eg verð aftur að taka það fram, sem eg sagði fyrr, að þetta hlýtur að skifta miklu um vinsæld laganna. Sjóndeildarhringur allra er takmarkaður, og það er víst um það, að hrepparnir litlu hafa sinn sjóndeildarhring. Ef gjöldin, sem hreppsbúar gjalda, renna í eigin sjóð, þá finst þeim eins og ekki sé stórt af sér tekið og hugsa um féð sem óeydda eign sína.

Einn nefndarmanna skýrði svo frá, að í sínum hreppi hefði verið megn óánægja út af þessu atriði, og að menn hafi beint verið á því að afnema lögin algerlega. En svo hélt hann, að ef þessu atriði hefði verið breytt, þá myndi hljóðið hafa orðið alt annað. Og svona getur það reynst í fleiri hreppum. Ef þessi breyting nær fram að ganga, getur það orðið til þess, að þeir menn, sem hafa helzt viljað afnema lögin með öllu, fari að hugsa sig betur um.