20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Hjörtur Snorrason:

Það er nú búið að ræða þetta mál allmikið og skal eg ekki bæta við nema örfáum orðum. Eg vildi aðeins taka, það fram, að eg hefi ekki orðið var við neina megna óánægju út af þessum lögum.

Það er aðeins þetta eina atriði, sem brytt hefir á óánægju út af á einstaka stað, og ekki þótt sem heppilegast. Það er þetta, sem deilt er um hér, hvort sjóðurinn skuli vera sameiginlegur fyrir alt landið, eða eins og farið er fram á í þessu frv., að helmingurinn sé séreign einstakra hreppa. Um það má náttúrlega deila, en eg get þó ekki skilið í því, að menn skuli ekki geta fallist á., að þetta, sem hér er farið fram á, sé það heppilegasta. Þess verður að gæta, að það sem landssjóður leggur til, er tekið úr vösum einstaklinganna óbeinlínis. Eg tel það ekki rétt, að þeir einstakir hreppar, sem verr standa að vígi, komi upp á hina hreppana.

Þeir hreppar verð eg að álíta að eigi tilkall til hins sameiginlega helminga sjóðsins. — Þó að lögin kunni að vera óvinsæl sumstaðar, sé eg ekkert á móti því, að þessi breyting nái fram að ganga, því að það eru einmitt líkindi til, að hún gjöri lögin vinsælli.