03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

20. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Framsögum. meiri hl. (Eggert Pálsson):

Þótt eg hafi orðið framsögumaður í þessum læknaskipunarmálum, þá er það ekki vegna kunnugleika, heldur hafa atvikin valdið því. Og þar sem mig brestur kunnugleika, þá er nefndarálitið ekki bygt á eigin sjón, heldur á gangi þessarra mála áður hér á þingi.

Háttv. deild er kunnug þessu frumv., sem nú liggur fyrir. Deildin hefir áður samþykt að stofna það hérað, Hnappdælahérað, og hefir þá þótt vera brýn þörf á því. Í nefndarálitinu 1911 segir, að vegalengdin sé afarmikil og torfærir vegir. Þessu mun ekki vera hægt að mótmæla. Fjallvegir eru miklir í héraði þessu, bæði að vestan og norðan. Að vestan er Fróðárheiði, sem er mjög ill yfirferðar og að norðan er Kerlingarskarð. Hvað vegalengdina snertir, þá er nálægt 10 tíma reið úr miðju héraðinu í Borgarnes. Af þessu er það ljóst, að miklum erfiðleikum er bundið fyrir héraðsbúa, sem eru um 900 manns, að vitja læknis.

Í fljótu bragði kynni mönnum að sýnast svo sem flytja mætti bústað einhvers af þeim þrem læknum, sem næstir eru, og þá líklega helzt læknisins í Borgarnesi. En það er nú upplýst, að sá flutningur getur tæplega komið til mála. Get eg um þetta skírskotað til nefndarálitsins á þskj. 289.

Nefndin hefir komið fram með þá breyttill., að taka inn í frumv. efnið úr næsta frumv., stofnun læknishéraðs í Bolungarvík. Það mál er ekki heldur nýtt hér á þingi. Á þinginu 1911 lá það einnig fyrir og þá var sömuleiðis tekið fram, að í þessu héraði væri við mikla erfiðleika að stríða, hvað lækni snerti, enda er öllum kunnugt, að svo er. Í Bolungarvík eiga heima rúmlega 1000 manns, samkvæmt upplýsingum frá hagstofunni, og er þeim því sem næst varnað að ná í lækni nema sjóleiðis innan af Ísafirði. Landveg má ef til vill klöngrast á milli, en varla getur það talist mannavegur, og á vetrum er ófært landveg, þegar alt er þakið snjó og hálum fönnum. Hér getur því engin önnur leið talist en sjóleiðin, sem þó getur oft hefzt, því að ekki gefur altaf á sjóinn. Meiri hluti nefndarinnar leggur því til, að samþykkja þetta frumv. í þessu formi, sem sé sem breyt.till. við frumvarp það, sem nú liggur fyrir.

Mér er það ljóst, að mótmæli muni koma fram gegn þessum frumvörpum. Býst eg við, að mótmælin verði aðallega þau, að ekki eigi við að fjölga læknishéruðum, meðan svo mörg læknishéruð eru auð. En eg hygg, að lengi megi bíða með sum hinna auðu héraða, að þau verði skipuð. Það er kunnugt, að læknar taka heldur þann kostinn að »praktisera« eða verða sérfræðingar, en að taka við þessum héruðum,

Sem þeir þykjast ekki geta lifað af. Það getur vel verið, að þessi héruð verði einnig auð, en þá er í frumvarpinu séð fyrir því, að enginn kostnaður hljótist af fyrir landssjóð, því að ef engir sérstakir læknar fást í þau, verður ekki heldur nágrannalæknum launað fyrir að gegna þeim.

Fleira þarf eg ekki að taka fram að sinni.