03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

20. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Eggert Pálsson :

Eg ætlaðist í rauninni til að fleiri tæki til máls, áður en eg talaði.

Háttv. flutningsm. frv. um stofnun Hólshéraðs hefir nú lýst örðugleikunum sem á því eru fyrir Bolvíkinga að vitja læknis, og þar með svarað athugasemdum háttv. 1. þm. Hún. (G. H.). Yfir höfuð er það fremur fyrir flutningsm. að lýsa staðháttum í þessum héruðum heldur en fyrir mig, þar sem eg er alókunnugur.

Eg hefi viljað fylgja þeirri Stefnu, sem áður hefir verið tekin í þessu máli. Eg benti á það, að fyrir þinginu 1911 hefði legið nokkur læknafrv., og vér höfum hér fyrir oss álit þeirrar nefndar, sem þá var skipuð í öll þau mál. Það varð þá niðurstaðan í neðri deild, að réttast væri að stofna eitt læknishérað á ári, og verða þannig við óskum landsmanna um fjölgun læknahéraða, því að þrátt fyrir það þótt háttv. 1. þm. Hún. (G. H.) segði, að alþýða manna vildi ekki fjölga embættismönnum, þá er það víst, að hún vill engum embættismönnum fremur fjölga en læknum. Það er sjálfsagt að taka tillit til þjóðarviljans í þessu efni, enda er það vitanlega þjóðinni fyrir beztu, að læknar sé sem fleztir og sem hægast að ná til þeirra.

Háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) kom eins og vænta mátti með þessa gömlu ástæðu, að það væri ekki ástæða til að fjölga læknahéruðum meðan til væri héruð óskipuð læknum. En þó að vér fjölguðum ekki læknahéruðum, þá væri ekki hægt fyrir oss að tryggja það, að læknishérað, sem læknum þykir ófýsilegt að setjast að í, verði lækni skipað. En þar sem hann mintist á, að ef læknahéruðunum yrði skift í smáhéruð, yrði það til þess að fjölga hinum óskipuðu héruðum, þá get eg ekki séð að sú skoðun sé rétt. Eg get ekki skilið, að það sé fýsilegra fyrir lækni að setjast í stórt og víðáttumikið læknishérað heldur en í lítið. Aðalatriðið er að fólkið sé margt, og t. d. í Bolungarvík er fjöldi fólks samankominn á einn stað, Svo að enginn efi er á því, að verði þar stofnað læknishérað, þá verður miklu fýsilegra fyrir lækna að setjast þar að heldur en í hinum viðáttumiklu héruðum. — Það virðist svo, sem skoðanir þeirra tveggja háttv. þm., sem talað hafa á móti stofnun þessara læknahéraða, sé nokkuð hver á móti annari. Háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) hélt því fram, að ef læknahéruðunum yrði skift niður í smærri héruð, yrði það til þess, að enginn læknir fengist til að setjast í þau. En aftur á móti virtist háttv. 1. þm. Hún. (G. H.) ætla, að þessi breyting miðaði að því að fjölga læknum og þar með auka útgjöld landssjóðs.

Eg skal svo víkja að því aftur, sem eg upphaflega mintist á, að það var stefna neðri deildar á þinginu 1911, að stofna eitt læknishérað á hverju þingi. Þá var stofnað hérað á Austfjörðum og jafnframt gaf nefndin í skyn tvímælalaust, að næst skyldi stofna læknishérað í Hnappadalssýslu. Hið þriðja átti svo að stofna í Bolungarvík. Svo vóru önnur frumvörp, sem nefndin hafði þá til meðhöndlunar, en koma nú ekki til greina og væntanlega ekki í næstu framtíð, svo sem frumv. um stofnun læknishéraðs milli vatna í Rangárvallasýslu, milli Þverár á aðra hlið og Jökulsár á Sólheimasandi á hina. Fimta læknishéraðsstofnunin, sem nefndin hafði þá til meðferðar, var stofnun læknishéraðs í Dalasýslu og hin sjötta í Skagafirði. Eg veit ekki, hvort nokkur ósk er nú lifandi um stofnun þessara læknahéraða., en víst er um það, að engin beiðni þar að lútandi hefir komið fram á þessu þingi, svo að ætla má, að þörfin sé ekki eins brýn eins og í þessum héruðum, sem hér er farið fram á að stofna. Eg styð þetta mál til þess að vera trúr þeirri stefnu, sem kom fram á þinginu 1911, að stofna fyrst Hnappdælahérað og síðan Hólshérað í Bolungarvík. Og eg sé ekkert á móti því, fyrst eitt þingtímabil hefir fallið úr, svo að þessari fyrirætlun þingsins 1911 hefir ekki verið fullnægt, að þá verði nú þessi héruð bæði stofnuð í einu.

Eg þykist svo ekki þurfa að segja meira um þetta mál að sinni. Aðeins skal eg taka það fram gagnvart háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.), sem virtist vilja slá á strengi sparnaðarins, að eg hygg að það sé óþarfi í þessu máli, því að þjóðin er vissulega til fárra hluta fúsari heldur en til að leggja eitthvað á sig til þess að vernda líf og limi einstakinganna. Og sízt hefði eg trúað því, að mótmæli í þessa átt kæmi frá háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.).