16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

57. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Flutningsm.. (Guðm. Hannesson):

Þetta er ofur einfalt mál. Meiningin með frumv. er sú, að afnema aukalæknisembættin á Ísafirði og Akureyri. Eg veit ekki, hvort háttv. deild er kunnugt um það, hvernig þessi embætti mynduðust í byrjun. Hugmyndin er komin frá mér og þaðan flutt inn á þingið. Í útlöndum er það föst venja, að kandidatar í læknisfræði æfi sig við læknastörf 1–3 ár á sjúkrahúsum eða sem aðstoðarmenn annara lækna, áður en þeir taka við embættum. Þar venjast þeir daglegum störfum lækna, því að lífið heimtar talsvert meira til þess að verða góðir læknar en bókalærdóm þann, sem menn hafa þegar þeir koma frá kandidatsborðinu. Þessu höfum vér Íslendingar ekki getað komið við, vegna þess hve læknaþörfin hefir verið mikil. En nú er læknaviðkoman orðin svo mikil, að að því rekur, að menn þurfi að bíða nokkur ár áður en þeir komast í embætti. Tilætlunin hjá mér var sú, að styrkur væri veittur í fjárlögum til aukalækna í þeim héruðum, þar sem þörfin væri mest í það og það skiftið. Þetta fé átti að renna til ungra kandidata til þess að þeir gæti aflað sér frekari þekkingar og æfingar í daglegum störfum lækna, án þess að það bakaði þeim sérstakan kostnað og ef til vill gæti þeir lagt dálítið upp, ef þeir væri duglegir og sparsamir. En þegar lögin um skipun læknishéraða frá 1907 vóru samin, þá víxlaðist það svo, að þessum mönnum var smelt inn í þau og settir á ákveðna staði. Með öðrum orðum : það vóru stofnuð sérstök embætti. Við þetta ónýttist mín hug mynd algerlega. Þess vegna fer nú frumv. fram á að afnema þessi embætti, sem alls ekki svara til tilgangs síns og eru að mínu áliti óþörf. Ennfremur á ekki við að hafa þau í þessum lögum. Þetta eru kölluð sérstök embætti, en þessir læknar hafa að eins 800 króna laun og engin eftirlaun. Þetta verður því hvorki fugl né fiskur. Finnist mönnum aftur á móti, að nauðsyn sé á að hafa aukalækna í þessum héruðum, þá má alt af veita sérstakt fé til þessa á fjárlögum, en í lögunum frá 1907 eiga þeir ekki heima.