16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

57. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Magnús Kristjánsson:

Mér sýnist þetta ekki vera svo tiltakanlega einfalt mál, eins og háttv. l. þm. Húnv. (G. H.) vildi gefa í skyn. Satt að segja furðar mig á að þetta frumv. skuli vera

framkomið, eins undirbúningslaust og það er. Eg rengi það ekki, að það hafi upprunalega verið skoðun háttv. þm. (G. H.), að þessi aukalæknisembætti á Akureyri og Ísafirði ætti ekki að vera föst embætti. Og þá hefði það ef til vill átt við. En tímarnir breytast, og það svo, að nú mun óhætt að fullyrða, að flestir, sem hér eiga hlut að, mundu telja það mjög óheppilegt ef þingið féllist á þær breytingar, sem háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) ræður til í þessu efni. Væri nú farið að afnema þessi embætti, þá get eg ekki annað séð, en að tilfinnanleg vöntun yrði á læknishjálp. Mér er kunnugt um það, að aðsóknin af sjúklingum er svo mikil á Akureyri, að tveir læknar hafa meir en nóg að gera. Enda er þetta skiljanlegt, þegar litið er á það, að þetta er stórt hérað. Akureyrarkaupstaður einn út af fyrir sig hefir á þriðja þúsund íbúa. Þar er stórt sjúkrahús, sem að jafnaði hefir um 10–20 sjúklinga, sem sækja þangað bæði úr kaupstaðnum og héraðinu í grend. Þess vegna tel eg það mjög varhugavert og alveg óviðeigandi að afnema þessi embætti. Það mætti ef til vill segja, að þingið gæti í hvert skifti veitt hæfilega upphæð í fjárlögum í þessu skyni, og þá yrði hugmynd háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) ef til vill náð, en það er valt að treysta á vilja þingsins, og óvíst, að þessi fjárhæð yrði alt af veitt.

Viðvíkjandi þeim orðum háttv. þm. (G. H.), að þessir aðstoðarlæknar standi í vegi fyrir því, að ungir kandidatar geti aflað sér frekari mentunar og æfingar, þá held eg, að það sé ekki alls kostar rétt. Eg held sem sé, að Reykjavík sé langheppilegasti staðurinn til þess. Ef háttv. þingm. vilja kynnast þessu máli, þá vona eg að þeir komist að raun um það, að rangt sé að afnema þessi embætti svona umsvifalaust. Héruðin hljóta að skoða þetta sem fasta stöðu, er þau eigi heimting á að halda. Og það er varhugavert að gera mönnum erfiðara um læknishjálp en áður hefir verið. Eg mun því verða eindregið á móti þessu frumv. og vona að svo verði um flesta háttv. þingmenn.