16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

57. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Framsögum. (Guðm. Hannesson):

Án þess að eg vilji á nokkurn hátt lasta háttv. þm. Ak. (M. Kr.), þá held eg, að háttv. deild megi trúa því, að eg þekki eins vel til þessa máls og hann. Hann talaði þarna af umhyggju fyrir sínu héraði, en þegar hann var að gefa í skyn, hve mikil nauðsyn væri á aukalækni á þessum slóðum, þá skal eg minna hann á það, að á þeim tímum, sem eg hafði þetta hérað, þá var það bæði stærra og fólksfleira. Nú hefir Svarfaðardalurinn verið tekinn út úr. Hann hefir um 1000 íbúa og auk þess var eg oft sóttur út í Fnjóskadal. Eg get því ekki skilið annað, en einn maður geti annast þetta starf eins og héraðið er orðið nú. Eg kannast við það, að gott er að hafa mann til þess að létta undir með sér og eg er þeirrar skoðunar enn. Eg held ekki, þótt sjúkrahús hafi verið reist á þessum stað, að aðsóknin sé meiri en hún var í minni tíð.

Það er ekki hætt við, að þingið taki ekki greiðlega í það að veita fé í fjárlögum í þessu skyni. Það er venjulega fúst á að létta undir með mönnum í svona málum.

Ef svo verður, þá býst eg við því, að minsta kosti er tímar líða, að ekkert verði því til fyrirstöðu, að bærinn fái sinn lækni. Reynslan sýnir, að þeir þyrpast einmitt í bæina. Svo er það að minsta kosti hér í Reykjavík, að þótt héruðin út um land standi auð, þá verður ekki þverfótað fyrir læknum hér. Má því næstum helzt óttast að ofmikið verði af þeim þar. Að minsta kosti er það víst, að ef duglegur héraðslæknir er á Akureyri, þá er þar eitthvert bezta æfingapláss fyrir ungan lækni.

Hvað það snertir, að Reykjavík sé bezt í því tilliti, þá er þess að gæta, að ungir læknar hafa einmitt gott af því, að kynnast sveitahéruðunum og ástandinu þar, ferðalögunum o. s. frv. Þar er ólíku erfiðara aðstöðu en hér, þar sem vér höfum spítala og alla konar áhöld og aðstoð á takteinum, eins og líka á sér stað erlendis. Það er gott, að hafa snemma vanist breytingunni frá þessu, ekki sízt þannig, að geta haft æfðan mann sér til leiðbeiningar.

Það var misskilningur hjá háttv. þm. Ak. (M. Kr.), að eg ætlaðist til þess, að þessar stöður sé teknar af þeim mönnum, sem nú gegna þeim. Þetta frumv. er að eins sniðið fyrir framtíðina, og eg býst við því, að löngu áður en það kemur til framkvæmda verði orðnir svo margir læknar á Akureyri, að sá bær verði ágætlega settur, þrátt fyrir þetta.

Mönnum hafði komið til hugar að vísa þessu frumvarpi til nefndar, er skipuð hefir verið til þess að athuga læknaskipun, en eg held að þess sé ekki þörf. Eg sé ekki neitt sérstakt, sem sé á móti frumvarpinu, því að það eru ekki nema grillur, að nokkur hætta geti stafað af því fyrir Akureyrarbæ. Hins vegar er að því nokkur sparnaður, og nú er svo ástatt, að sum héruð eru læknislaus, meðfram einmitt vegna þess, að þessir tveir menn hafa sezt að á þessum stöðum.