03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

57. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Eggert Pálsson:

Eg vona að það sé óþarfi að tala mörg orð um þetta frumv. nú. Eg treysti því, að úr því háttv. deild er nú einu sinni komin á lagið, að skera niður frumvörp, þá muni hún verða fús til þess að skera þetta líka niður eftir tillögum meiri hluta nefndarinnar.

Eina og þinginu er kunnugt, fer frumvarpið fram á það, að nema burt hina lögskipuðu aðstoðarlækna á Akureyri og Ísafirði. Nú er með nýafstaðinni atkvæðagreiðslu hér í deildinni fengin ný ástæða til að fella þetta frumvarp. Þegar búið er að fella það að stofna nýtt læknishérað í Bolungarvík, þá mætti það makalaust heita, ef sú stefna væri tekin, að nema um leið burtu aðstoðarlæknisstöðuna á Ísafirði. Það væri hér um bil sama sem að gera mönnum ómögulegt að ná sér í læknishjálp sunnanvert við Ísafjarðardjúpið. Eg vona því, að menn verði sammála um það, að þetta megi ekki gera. Þó að nú sé reyndar nokkuð öðru máli að gegna um Akureyri, þá verður þó þetta tvent að fylgjast að héðan af. Annars eru í nefndarálitinu færðar sérstakar ástæður fyrir því, að sterk rök mæli með því, að kippa ekki burtu aðstoðarlækninum úr þessum kaupstað fremur en hinum. Það gæti vitanlega komið til mála, að afnema þessa lögskipuðu aðstoðarlækna bæði á Ísafirði og Akureyri, ef nokkur trygging væri fyrir því, að fleiri eða færri »praktiserandi« læknar settist þar að, en meðan það er ekki, þá sýnist það ekki takandi í mál.