10.07.1914
Neðri deild: 8. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

21. mál, mat á lóðum og löndum í Reykjavík

Flutningsm. (Sveinn Björnsson):

Það er eins ástatt með þetta frv., og tvö önnur frv., sem nú eru komin fyrir þingið, að það hefir verið rætt í bæjarstjórn Reykjavíkur, er samið og samþykt af henni, og okkur þingmönnum kjördæmisins svo falið að flytja það hér.

Efni þess er að koma á fastri matsnefnd fyrir lóðir og lönd í Reykjavíkurbæ. Eina og ég hefi áður tekið fram hér í deildinni er bærinn sjálfur eigandi að allmiklum lóðum og löndum í Rvík, og ýmsir menn í bæjarstjórninni hafa á síðari árum hneigst meir og meir að því, að sýna þessari fasteign bæjarins meiri alúð en hingað til hefir átt sér stað. Sérstaklega vilja menn gæta þess vandlega, að það gangist ekki við framar, eins og áður, að farið sé með þessa eign, eins og hún væri einskis virði. Hér hafa mönnum verið gefnar lóðir, eða látnar á leigu fyrir örlítið verð, alt fram yfir síðustu aldamót. En nú hefir bæjarstjórnin komist að þeirri niðurstöðu, að leigja aldrei lóðir gegn fyrirfram ákveðinni leigu um langan tíma, því að þær stíga sí og æ í verði, eftir því sem meira er gjört bænum til þrifa og framfara, og þá vex auðvitað leiguverðgildi þeirra að sama skapi. Þess vegna hefir bæjarstjórnin tekið þá stefnu, að leigan skuli ákveðin á 5 ára fresti. En þá er eftir sá vandinn, hvernig á að ákveða leiguna fyrir hver 5 ár. Það hefir áður verið ákveðið í samningum, sem bæjarstjórnin hefir gjört, að það skuli gjört eftir mati tveggja óvilhallra manna, en það vill verða svo, að þegar ýmsir menn meta samskonar eða nálægar lóðir, þá verður mat þeirra ærið mismunandi, einkum eins og nú er ástatt, þar sem engar ákveðnar reglur eru settar þessum mönnum, til þess að fara eftir í mati sínu. Þess vegna hefir bæjarstjórninni hugkvæmst að fá skipaða sérstaka matsnefnd, er leitað sé til í hvert skifti, sem bærinn lætur land eða lóð af hendi. Og eins er það, að ef ákveðið verður að meta leigulönd bæjarins á 5 ára fresti, þá er ætlast til, að svo sé ákveðið í samningum bæjarins við leigjendur, að þeir hlíti mati þeirrar nefndar. Þetta ætti að vera til þess, að meiri festa yrði í matinu, þegar þessir sömu menn fengist við það, sem skipaðir væri til 6 ára, þó þannig, að skift sé um einn mann annaðhvert ár. Auk þess er gjört ráð fyrir að Samdar verði ítarlegar reglur handa matsnefndinni, sem hún á að fara eftir við matsgjörðirnar.

Þetta er þá í stuttu máli efni og tilgangur frv. Hér er áreiðanlega um ráðstöfun að ræða, sem horfir til hagsmuna fyrir bæjarfélagið, og eg vona því, að háttv. deild hafi ekki á móti þessu frv., heldur leyfi því fram að ganga — helzt nefndarlaust. En vilji menn setja það í nefnd, þá óska eg að því verði vísað til nefndar þeirrar, er kosin hefir verið til að athuga frv. til laga um mæling og skrásetning lóða og landa í Reykjavík.