15.07.1914
Neðri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

22. mál, vegir

Eggert Pálsson :

Það er nú sýnt, að þetta frumvarp ætlar að mæta mótspyrnu, eina og við var að búast eftir undanfarandi reynslu að dæma. Það hefir þegar verið mælt á móti frumv. af einum háttv. þingmanni og fleiri hafa beðið um orðið, sem líklegir eru til andmæla. En hvaða byr, sem þetta frumvarp fær, þá verður því ekki mótmælt, að það hefir við mikil rök að styðjast. Þessi vegur, sem hér er um að ræða, liggur beint frá Reykjavík austur um sýslur og svo hringinn í kring um landið, og er því hreint og beint þjóðvegur í eðli sínu. Hann tengir tvö stærstu héruð landsins við höfuðstaðinn og um leið við samgöngurnar á sjó.

Það var lengi vel, að þessi héruð vóru svo að segja algerlega útilokuð frá öllu samneyti við aðra. Loks sá þing og þjóð, að svo búið mátti ekki standa, og var svo þessi vegur lagður og brýrnar bygðar á Ölvusá og Þjórsá. Þar með var viðurkenning fengin fyrir því, að þessi héruð þyrfti og ætti að tengjast við hafnaratað. En þegar er þessi viðurkenning var fengin, kipti þingið hendinni að sér aftur og dembdi viðhaldi vegarins á sýslurnar. Út af þessu varð töluverð æsing, eins og menn muna.

Í Rangárvallasýslu hlupu menn til og skrifuðu undir stórt skjal, þar sem menn óskuðu helzt að segja sig úr öllum samlögum við landið. Hvað sem um þetta tiltæki er að segja, þá er það ljós vottur um óánægju þá, sem þetta vakti þar um slóðir. Og þótt aðferðin, sem beitt var, kunni að hafa þótt óviðfeldin, þá verður því þó með engu móti neitað, að þessi óánægja hafi átt við töluverð rök að styðjast. Því að eina og eg benti á áðan, þá er þetta þjóðvegur, og óneitanlega er það eðlilegast, að þessi spotti þjóðvegarins, frá Ingólfsfjalli til Rangár, hlíti sömu reglum og hinir vegarkaflarnir fyrir austan og vestan.

Annað það, sem segja má að hafi verið eðlileg ástæða til óánægjunnar, er það, að þessi héruð eru útilokuð frá strandferðunum, að minsta kosti beinum notum þeirra, sem aðrir landshlutar hafa þar sem um brúklegar hafnir er að ræða. En hins vegar greiða þessi héruð fullkomlega sinn hluta af fé því, sem úr landssjóði er árlega lagt fram til þess að halda strandferðunum uppi.

Svo er enn hið þriðja, sem ekki er veikust ástæða til þessarar óánægju, og það er það, hversu illa vegirnir vóru gerðir í fyrstu. Það reynist oft svo, að það sem ódýrast er í fyrstu, verður dýrast þegar fram í sækir. Og svo verður reynd á hér. Lagning vegarins hefir, vegna þess hvað lítið var til hennar vandað, orðið tiltölulega ódýr, en viðhaldið verður þá líka að sama skapi dýrara og þess vegna algerlega ósanngjarnt, að það hvíli á sýslufélögunum og sýnilegt að hlýtur að verða kröftum þeirra ofvaxið, ef það á að verða í nokkru lagi. Alt þetta þrent mælir þannig með því að landssjóður taki við viðhaldi alla vegarins austur. Reyndar mætti segja, eins og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) vildi halda fram, að sýslusjóðunum væri ekki vorkunn að halda þessum vegi við, vegna þess, hvað þessi héruð eru fjölbygð. Þetta mætti telja rétt, ef ekki væri um fleiri vegi að ræða., sem á sýslufélögunum hvíldi. En það eru vitanlega miklu fleiri vegir, en þessir sem hér um ræðir, sem sýslusjóðirnir verða að kosta viðhald á. Hvað Rangárvallasýslu snertir skal eg t. d. nefna veg, sem kallaður er Fjallabaksvegur og liggur í gegnum Holtin og upp Landsveitina; Fljótshlíðarvegur utan úr Hvolsvelli og inn eftir Fljótshlíðinni. Tveir vegir fram í Landeyjar bæði Austur- og Vestur-Landeyjar og vegur ofan frá Þjórsárbrú og alla leið niður í Þykkvabæ, auk ýmissa annarra vegarkafla, sem sýslusjóður verður að styrkja að meira eða minna. leyti.

Af þessu er auðsætt, að það er ekki lítið fé, sem verður að ganga til alls þessa vegaviðhalds úr sýslusjóðunum.

Samt sem áður hygg eg þó, að því er Rangárvallasýslu snertir, að óánægjan með þá skyldukvöð, að halda Holtaveginum við, hefði með tímanum sjatnað nokkuð, ef vegurinn hefði ekki verið illa gerður upphaflega, og í öðru lagi hefði ekkert nýtt komið til sögunnar, sem gert hefði viðhaldið erfiðara og kostnaðarsamara, sem sé »bíla«ferðirnar eftir vegunum. Það er þegar sýnilegt að »bílarnir« hreint og beint plægja upp vegina og hljóta. því að gjöra viðhald veganna margfalt kostnaðarsamara, án þess að íbúar héraðanna hafi nokkurn hagnað af ferðum þessum í aðra hönd. Eina og allir vita létta þessar »bíla«ferðir ekki nokkurn skapaðan hlut undir flutningana, sem íbúum þessara héraða hafa verið og eru ennþá svo kostnaðarsamir og erfiðir. Menn verða að flytja vörur sínar með gömlu tækjunum jafnt eftir sem áður. »Bílarnir« eru því enn sem komið er eingöngu eða aðallega fyrir Reykjavíkurbúa og það aðeins til skemtunar, og er það hart fyrir héraðsbúa, að þurfa að liggja undir skemdum á vegum sínum af þeirra völdum og eiga að kosta viðhaldið, en hafa hins vegar engin notin. Því að ekki get eg talið það almenn not fyrir héraðsbúa, þótt eg sjálfur og einstöku menn aðrir sem líkt eru settir, kunni að fara með þeim eina eður tvær ferðir á ári. Almenningur til sveita hefir ekki ráð á að njóta þægindanna við slíkt ferðalag, jafn hátt og fargjaldið er, og hinsvegar er það þegar sýnilegt, að þessi tæki geta ekki orðið til neins léttis eða hagnaðarauka fyrir héraðsbúa, að því er vöruflutninga snertir, sem er og verður fyrir þeim jafnan aðalatriðið. Eg hygg þess vegna að þegar menn athuga þær miklu skemdir, sem vegirnir verða fyrir af völdum annarra en sýslubúa, þá verði mönnum það ljóst, að það er ekki ófyrirsynju farið fram á, að þessi vegur verði tekinn til viðhalda af landssjóði í staðinn fyrir að skylda sýslusjóðina til að sjá um viðhald hans.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) mintist á, að ef landasjóður yrði látinn taka þennan spotta til viðhalda, þá mundi viðhaldi allra annarra flutningabrauta á landinu verða skelt á hann. Þetta er ekki rétt, því um þennan kafla stendur öðruvís á en um aðrar flutningabrautir. Hann er eina og kliptur út úr reglulegum þjóðvegi og fenginn umræddum sýslum til viðhalda, en á öðrum stöðum á landinu — t. d. í kjördæmi háttvirts þm. flutningabrautin frá Húsavík — eru það smábrautir, sem um er að ræða, en engir þjóðvegir, að sínu leyti eins og brautirnar út frá þessum vegi : Grímsnesvegur, Skeiðavegur, Fjallabakavegur o. fl.

Ef afleiðingin af þessu frv. yrði nú, að viðhald allra flutningabrauta kæmi á landssjóðinn, yrði beinast að ætla, að þær flutningabrautir, sem liggja út frá þessum umrædda vegi, t. d. brautin upp Skeiðin, Landið o. fl., kæmi líka á landasjóðinn, en slíkt hefir engum, mér vitanlega, komið til hugar.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni. Eg vona að háttv. deild geri frv. svo hátt undir höfði, að setja nefnd í það, ekki sízt þar sem samskonar frv. um breyting á vegalögunum mun vera til meðferðar í háttv. Ed., og auk þess er næsta mál hér á dagakránni um sama efni. Í nefnd gefst mönnum betra tækifæri til að átta sig á öllum þessum málum.