15.07.1914
Neðri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

22. mál, vegir

Einar Arnórsson:

Það er nú varla guztuk að þreyta deildina með lengri umræðum. Hv. þingm. S.-Þing. (P. J.) og háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.), hafa báðir mælt á móti þessu frumv. og báðir á sama grundvelli. Það sem á útlendu máli er nefnt »Principrytteri« er ástæðan, sem þeir byggja andmæli sín á. Það má segja um þá hið sama og sagt var um einn mann endur fyrir löngu hér á þingi, að þeir ríði »Principum« fantareið. En það er ekki alt af vakurt þó að riðið sé. Báðir vóru þeir á því, að það gæti verið rangt að leggja viðhaldskostnað veganna á sýsluna; en þar sem þeir eru ekki alveg vissir um, hvort þetta »Princip« (?: að sýslan beri viðhaldskostnaðinn) kunni að vera rétt, þá er það harla einkennilegt, að þeir verða ókvæða við, þótt reynt sé að höggva dálítið skarð í það.

En svo að eg nú víki nánar að málinu, þá er það rangt, að þessi vegur sé eingöngu fyrir austanhéruðin. Hann er kannske minst fyrir þau, en mestmegnis fyrir Reykvíkinga, útlendinga og aðra ferðalanga og svo bifreiðirnar, sem gera mikið vegtjón, að því er sagt er.

Meiri hluti sveitanna í Árnessýslu hefir sama sem ekkert gagn að veginum. Svo er um Grímsnes, Þingvallasveit, Grafning, Selvog og Ölfus og suma Flóahreppana. Tungnamenn hafa heldur ekki mikil not vegarins.

Þá er það og þýðingarmikið atriði, að mjög er erfitt að ná í ofanburð á þessum slóðum og viðhaldið því að mun kostnaðarmeira en ella. Og getur því sýslan alls ekki annað viðhaldinu til lengdar, svo að í fullu lagi verði.

Háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) var að tala um, að nauðsynlegt væri að spara sem mest. Jú! það er mikið rétt. En er það sparnaður að drepa niður heilt hérað til þess að spara landssjóði nokkrar krónur? Sýslufélagið munar svo mikið um þennan kostnað, að það getur ekki staðist hann. Aftur á móti munar landssjóð það tiltölulega miklu minna. Margar hendur vinna létt verk, þótt fáar geti alls ekki unnið það. Þetta er ekki annað en að láta peningana yfir í annan vasann til að létta á hinum.

Sami háttv. þingm. vildi láta flutningsmenn bera sig saman við aðra þm. áður en þeir bæri frumvarpið fram. Það getur verið, að slíkt hefði verið heppilegra, en við héldum nú, að þess þyrfti ekki við í þessu máli, þar sem frumvarpið er gamalt og ekki ókunnur gestur þingmönnum.

Hann talaði mikið um samvinnu þingmanna í þessu máli eða út af því. Hv. samþingismaður minn hefir svarað þessu alveg rétt. við viljum samvinnu allra góðra manna, og væntum þess, að þeir fallist á mál okkar, þegar þeir hafa hugsað um þau rök, sem til þess liggja og við höfum fært fram.