15.07.1914
Neðri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

22. mál, vegir

Eggert Pálsson:

Eg ætla að segja fáein orð út af því, sem háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) sagði. Mér virðist sú athugasemd hans hafa við mikil rök að styðjast, að ástæða sé til þess að taka það til athugunar, hvort ekki sé brýn þörf á því, að endurbyggja þessa vegi gjörsamlega. En ef hann og aðrir hv. þm. fallast a þetta, þá hljóta þeir, til þess að vera sjálfum sér samkvæmir, að fallast á það, að landssjóður taki viðhald veganna að sér, því að óhugsandi er, að þeir ætlist til þess, að sýslurnar geti endurbygt vegina, og endurbyggingin hlýtur þó að teljast til viðhalds. Eins og eg hefi áður sagt, eru vegirnir afarilla gjörðir í upphafi, og viðhaldið því örðugra og dýrara, en ella. Og ef sýslurnar eiga að hafa það á hendi, þá á landið ekki að sletta sér fram í það mál, en eigi að endurbyggja vegina, þá verður landsjóður fyrst að taka við þeim að öllu leyti, því að það er héruðunum ókleift að framkvæma slíkt.

Um það, er sami háttv. þm. komst líka inn á, hverjir mest nota vegina, má lengi deila. En þótt hann vilji halda því fram, að Austursýslurnar noti þá meira, þá hlýtur hann þó að skilja það, að Reykvíkingar nota þá líka jöfnum höndum. Enda er það oft viðurkent af Reykvíkingum, að þeim sé nauðsynlegt að hafa greið sambönd við héruðin eystra, svo að um þetta er óþarft að deila. En það hygg eg, að svo framarlega, sem það væri mögulegt fyrir þau héruð að komast að viðskiftum annarsstaðar en í Reykjavík, þá mundi það koma í ljós, að Reykjavík misti mikils. Og þótt nú sé ekki horfur á því í næstu framtíð, að svo fari, þá gæti svo farið einhvertíma, að menn þar sneri sér í einhverja aðra átt með verzlunarviðskifti sín, t. d. til Vestmannaeyja. Þar er nú verið að koma upp höfn, og getur það orðið til þess, að verzlunin hverfi meira þangað, en verið hefir, og mundi þá Reykjavík reka nefið í það, — ef eg mætti svo að orði kveða — að greiðar samgöngur austur á bóginn væri ekki síður í hennar þágu en umræddra héraða.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) var að tala um einhverja þingmálafundartill. og nefndi til þess Rangárvallasýslu, þar sem skorað væri á þingið að gæta alls sparnaðar, en væri þó jafnframt til þess ætlast, að ausið væri út landsfé til við komandi héraðs. Eg skal út af þessu taka það fram, að hér fer þm. vitandi eða óvitandi með rangt mál, því að að því er Rangárvallasýslu snertir, þá hafa engar slíkar tillögur þar verið samþyktar, enda enginn þingmálafundur þar haldinn fyrir þing. (Sigurður Sigurðsson: Engar slíkar ályktanir í Árnessýslu heldur. Þetta eru bara Gróu-sögur). Hv. þm. hefði verið betra að vita rétt, en hyggja rangt í þessu efni sem öðrum.

Eg skal svo ekki fjölyrða meir um málið að sinni. Eg býst við, að það verði sett í nefnd, og verður þá kostur að ræða það betur, er það kemur frá henni.