15.07.1914
Neðri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

22. mál, vegir

Benedikt Sveinsson:

Eg ætla að leiða hjá mér þrætu þá, er þeir heyja hér háttv. þingm. Árnesinga og Rangæinga og þeir, sem í móti þeim hafa mælt. — Þó verður því varla neitað, að flutningsmenn hafa sótt mál sitt með nokkurum öfgum. Það nær t. d. engri átt, að vegur þessi sé »minst fyrir héruðin«, Árnesþing og Rangárþing, því að vitanlega er hann mestmegnis notaður af íbúum þeirra héraða. Það er einnig síður en svo, að þessi vegur sé fremur notaður af utanhéraðamönnum, en ýmsir aðrir vegir, sem héruð kosta viðhald á, og vil eg t. d. nefna veginn úr Borgarnesi upp fyrir Gljúfurá. Um þann veg fer mikill fjöldi manna annarra en Mýramanna, eða allir þeir, er landveg fara úr Borgarnesi til Norðurlands, eða að norðan þangað, Strandamenn, Húnvetningar, Skagfirðingar og jafnvel Eyfirðingar og Þingeyingar.

Háttv. 2. þingm. Rang. (E. P.) sagði, að bifreiðaferðirnar væri »eingöngu fyrir Reykjavíkurbúa«, en slíkt er fjarri sanni. Sjálfur þingmaðurinn og samþingismaður hans komu hingað á bifreið til þings, og skil eg ekki, að þeir telji þingsetu sina eingöngu í þágu Reykjavíkur.

Þrætan um viðhald veganna er mestmegnis sprottin af því tvennu, að vegirnir hafa verið illa gerðir í upphafi, svo að viðhaldskostnaðurinn verður mjög tilfinnanlegur og að sumstaðar er örðugt að ná í góðan ofaníburð og þarf að flytja hann langar leiðir.

Fram úr þessu þarf að ráða á réttan hátt. — Þeir, sem fara um veginn austur, munu sjá, að þar eru kaflar á veginum, sem eru þurrir og glymjandi harðir nærri því á öllum tímum árs, þegar þeir eru auðir, og kemur það af því, að þar er ofaníburðurinn góður. Viðhald á köflum þessum er mjög lítið. Ofaníburður þessi fæst á ýmsum stöðum, en flutningur á honum ofan í allan veginn verður mjög dýr með þeim áhöldum, sem hingað til hafa verið notuð. Það er ókleift og afardýrt að flytja ofaníburð í vagnskrifli með einni dróg fyrir. Með slíkri skrælingja-aðferð verða aldrei gerðir viðunandi vegir hér á landi fremur en annarsstaðar.

Fyrsta skilyrðið til þess, að hér verði góðir vegir er það, að útvega nútíðaráhöld til vegagerða. Vér þurfum að eignast sterka flutningabifreið, er flutt getur stór hlöss af góðum ofaníburði á skömmu bragði þótt um all-langan spöl sé að ræða. Slíkir vagnar eru hafðar til vegagerða í Vesturheimi. Vélin sjálf hleður vagninn í einni svipan, hún mylur einnig ofaníburðinn ef þess þarf með og mundi vinnast greitt að brjóta niður gjall og hraunmylsnu, sem víða er kostur á hér sunnanlands.

Ef slíkt áhald er keypt og notað, fást ágætir vegir, sem lítið viðhald þurfa. Hitt er gagnslítið og mundi verða afardýrt, að leggja nýja vegi með gamla laginu, og viðhaldið yrði tilfinnanlegt.

Nefndin ætti því að leita sér upplýsinga um það, hvað slík áhöld kosta, sem eg hefi nefnt, og er hér í bænum kostur þeirra manna, sem geta frætt hana um það, — og stuðla að því að þau verði útveguð sem fyrst. Þá mundi lagning nýtilegra vega og viðhald þeirra kosta minna í framtíðinni.