10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

113. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Eyjólfsson:

Þessi breytingartillaga á þgskj. 451, um að tvöfalda þingmannatölu Reykvíkinga, er að öllu óþörf, án þess þó að maður vilji, að þeir hafi nokkuð skerðan rétt við kosningar, í samanburði við aðra. Það er nú svo og hefir verið svo síðan eg man eftir, og verður líklega svo í náinni framtíð, að þriðji partur og það alt upp í helming af þeim mönnum, sem sitja og setið hafa á þingi, eru reykvískir borgarar. Og að segja og halda því fram, að slíkt hafi enga þýðingu vegna réttar og vegna áhugamála Reykjavíkurbæjar, er nokkuð einkennileg sögn, og naumast frambjóðanleg á alþingi.

Það er áreiðanlegt, að allir þeir þingmenn, sem eru búsettir í Reykjavík, fyrir hvaða kjördæmi sem þeir eru þingmenn, hafa mikinn áhuga, mikið meiri áhuga en aðrir þingmenn, fyrir réttarspursmálum og áhugamálum Rvíkur bæjar, þ. e. a. s., ef það eru menn, en ekki guðir, menn, með eðlilegum og mannlegum eiginleikum.

Það er þrent, sem myndar þær kringumstæður, að þetta kjördæmi hefir mikið betri afstöðu, og fær því óbeinlínis meiri pólitískan rétt en nokkurt annað kjördæmi landsins.

Í fyrsta lagi er það, sem eg mintist á áður, að hér á þingbekkjunum sitja, og hafa altaf setið Svo margir reykvískir borgarar.

Í öðru lagi, að hér í þessu kjördæmi er þingið haldið. Það er því ólíkt hægra fyrir kjósendur hér heldur en fyrir kjósendur út um land að hafa áhrif á þingmenn og á málameðferðina í þinginu. (Einar Arnórsson: Hefir háttv. þingm. Mýrasýslu (J. E.) orðið var við, að það sé agiterað í þm., eða þekkir hann þau áhrif ?). Eg veit til, að það hefir verið agiterað í háttv. 2. þm. Árn.

Í þriðja lagi er það ástæða, að þetta kjördæmi er höfuðstaður landsins, og allir höfum vér meiri sameiginlegan meðhug og samhug með höfuðstað vorum heldur en öðrum hlutum landsins. Eg býst við að vér mundum flestir vilja fremur hlynna að einhverjum framfara og menningarfyrirtækjum hér, heldur en ef um samskonar atriði væri að ræða annaðhvort vestur á Hornatröndum eða austur í öræfum.

Mér kom það nokkuð á óvart, að framsm. meirihl., háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) skyldi koma fram með þessa brt. nú á 11. stundu. Á öllum þeim fundum, sem nefndin hefir setið saman í aumar, hefir hann aldrei hreyft þessu atriði, heldur viljað, eina og vér hinir, sleppa alveg 7. greininni. Það lítur út fyrir að hann hafi viljað njóta einn heiðursins og þakklætisins fyrir að rétta að Reykvíkingum þennan glaðning, nema ef svo væri, að bæjarmenn hefði agiterað daglega í honum til að framfylgja þessu máli.

Nokkrir menn hafa haldið því fast fram, og sérstaklega barst hávær rödd hér um salinn við 2. umr. frá háttv. 1. þm. Rvíkur (Sv. B.) um; að enginn annar mælikvarði væri réttari en sá, að skifta kjördæmunum niður eftir manntali, og þá ætti Reykjavík að hafa líklega 5 þingmann.

En það er áreiðanlegt, að ef héruðin og einataklingarnir í héruðunum ætti að hafa fullkominn og eðlilegan kosningarrétt, þá er það víst, að það verður að líta á fleira en á þessa einu hlið.

Við 1. umr. málsins sýndi eg fram á (og það hafa margir tekið í sama strenginn síðan) hve mikið það væri, sem mælti með því, og hve eðlilegt það væri, að kjördæmaskipunin væri bundin sömu takmörkum og sýsluskipunin, vegna þess, hve sýslufélögin hafa innbyrðis margt og mikið sameiginlegt og margra sameiginlegra hagamuna að gæta.

Eg veit ekki betur, en að allir þeir menn sé óánægðir með kjördæmabreytingartill. stjórnarinnar, þar sem einhver sú breyting á að verða, er geri það, að hreppur, eða partur úr einu kjördæmi, er tekinn og lagður til annars kjördæmis, eg held helzt hér um bil jafnt, hvort heldur kjördæmin eru rýrð eða aukin með slíkri breytingu. En þar sem þessum merkjum er ekkert raskað; þá kemur úr þeim hornum engin óánægja.

En sérstaklega eru allir þeir hlutaðeigendur ráttúrlega ánægðir, þar sem engin breyting er gerð á kjördæmaskipuninni, en aðeins gert ráð fyrir, að þingmönnum fjölgi, eins og á sér hér stað, þegar um Reykjavík er að ræða. En hvað mundu hinir háttv. Reykvíkingar, eða þingmenn Reykvíkinga, segja um það, að kosningaréttur þeirra yrði aukinn með því, að nokkur hópur af þeim fengi að kjósa með Vestmannaeyingum og annar hópur með Seyðfirðingum, því að það stefndi þá að því marki, að jafna kjósendunum niður í kjördæmi, og slíkt væri ekkert óeðlilegra eða ranglátara en það, að taka part af Ísafjarðarsýslu, eða part af Barðastrandarsýslu, og setja þá í kosningarsamband við Strandasýslu, eða taka nokkurn part af Snæfellsnessýslu og setja hann í kosningasamband við Mýrasýslu.

Eg skal ekki segja neitt um það, hvernig Reykvíkingar myndi líta á slíka tillögu; en ef þeim þætti þetta óheppilegt og óeðlilegt, þá ætti þeir líka að skilja, að einnig sama skoðun og tilfinning ætti heima út um landið, þar sem um það væri að ræða, að slengja saman í kosningasamband pörtum úr tveim til þrem sýslum, sem mjög lítið vildi eða hefði saman að sælda.

Háttv. þingmenn Reykvíkinga o. fl. hafa lagt áherzlu á það, að hver þingmaður eigi að vera þingmaður alls landsins, en ekki neitt sérstaklega síns kjördæmis, og að hann eigi því ekki fremur að hugsa um eða hlynna að sínu kjördæmi en annara, og þá um leið, að hver sem slíkt geri, sé staður í hinni fyrirlitlegu hreppapólitík. Er ekki rétt? (Sveinn Björnsson: Jú.).

Þetta er auðvitað og áreiðanlega ekki nema að hálfu leyti sannleikur, ef það er þá svo mikið, enda skil eg illa það hugsanasamræmi, sem hér kemur fram; því væri það rétt, sem hér er sagt, þá ætti að hverfa þörfin og áhuginn fyrir því, hvort sérstakt kjördæmi ætti að hafa ríflega þingmannatölu.

En eg og fleiri hafa litið svo á, að þó að þingm. sé þingmenn alls landsins, þá sé hann þó jafnframt og sérstaklega þingmaður og fulltrúi fyrir sitt kjördæmi, og það hefir mér heyrst og skilist nú á þessu þingi, eins og eg býst líka við, að þingtíðindin sýni á sínum tíma, að þrátt fyrir það, þótt hinn hv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) sé þm. Íslands, þá hafi hann þó sérstaklega verið þingm. og fulltrúi fyrir Reykjavík. Og eg skal bæta því við, honum til heiðurs, að eg álít, að hann hafi verið bæði góður og duglegur þingmaður fyrir þeirra hönd.

Það er annars hlægilegt, að heyra til þeirra þingmanna, sem eru að tala um það, hvað þeir fyrirlíti hreppapólitíkina, þeim hinum sömu herrum er þá víst óhætt að fyrirlíta sig sjálfa, því engir eru hér víst alveg syndlausir í þessu tilliti, þar sem það er kölluð hreppapólitík, ef þingmaður vill hlynna að kjördæmi sínu, eða beitir sér fyrir áhugamálum þess.

Ef sú framkoma hjá þingmanni er lítilsvirt eða vítt, að hann beiti sér meira fyrir áhugamálum sínum og kjördæmis síns, en annara, þá er eiginlega ráðist á það, sem er efst á baugi og sjálfsagðast í mannlegu eðli, þ. e. á eigingirnina og sjálfselskuna.

Eftir því sem kringumstæðurnar eða atvikin liggja nær eða fjær manninum, eftir því fylgist hann með, með meiri eða minni samhug, og þó helzt og sér í lagi, ef málið snertir hann eitthvað sjálfan. (Sveinn Björnsson: Hugsar þm. Mýramanna mest um sjálfan sig?). Já, og eg hygg, að háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.), eða hver annar, sem væri t. d. mjög mikill föðurlandsvinur, vissi naumast sjálfur hvað mikið væri á bak við það, og innan um það af sjálfselsku og eigingirni.

Hversu mikill föðurlandsvinur sem einn maður er, þá mun honum þó oftast vera kærastur Sá bletturinn í landinu, það héraðið, sem hann hefir fæðst í og lifað í, og fyrir það mundi hann helzt vilja vinna, og þó þykir honum ekki eins vænt um neina sveitina í héraðinu, eins og þá sveitina, sem hann býr í, og að henni vill hann helzt hlynna.

Allar þessar tilfinningar og skoðanir eru meira og minna blandaðar af eigingirni og sjálfselsku.

Og þó er munurinn langmestur þegar kemur að því, að hversu innilega vænt sem honum þykir um sveitina sína, þá er honum samt svo langkærust sú jörðin, sem hann hefir alist upp á og býr á, og um ekkert heimilið er honum eins ant og sitt eigið heimili; um það hugsar hann aðallega og mest.

En hversu ant, sem honum er um sitt heimili, þá er honum þó lang annast um sjálfan sig af öllu heimilisfólkinu; það hefir aðeins verið talin undantekning, að góð móðir hugsaði eins mikið um barnið sitt og sjálfa sig.

Það má nú kannske segja, að þetta sé utan við efnið, og að eg sé kominn hér út í nokkuð skáldlegar hugleiðingar, en eg hefi hér verið að reyna að sýna það, að þess nær sem málin eða viðburðirnir standa manninum, þá er það áreiðanlegt. að þess meiri áhuga hefir hann fyrir þeim; því maðurinn er eiginlega sjálfur miðpunkturinn, sem alt snýst um hjá honum.

Eg hefi verið að reyna að sýna hér fram á, að það er ekki þýðingarlaust í þessu sambandi, hvaðan þingmaðurinn er, eða hvar hann er búsettur, og það er því ekki þýðingarlaust fyrir Reykjavík, að eiga jafnálitlegan hóp af mönnum hér á þingbekkjunum, eins og maður sér þegar maður lítur nú hér yfir þá.

Það verður sannarlega, að líta á fleira en mannatöluna, ef farið verður að breyta til um kjördæmaskipun landsins, það er ekki sá eini sanni og rétti mælikvarði.

Að endingu vil eg benda á það, að eg álít, að menn hér á þinginu eigi ekki, og að þeim farist illa, að hafa mjög þung og hörð orð yfir það, sem þeir kalla hreppapólík; þeir ætti fyrst að athuga greinilega, hvort þeir væri þar alveg syndlausir sjálfir.