31.07.1914
Neðri deild: 29. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

22. mál, vegir

Framsögumaður minni hl. (Guðmundur Hannesson):

Eg veit ekki, hvað háttvirtir þingmenn hafa komist yfir á þessum ófriðartímum — hvort þeir hafa lesið álit minni hluta nefndarinnar. Ef þeir hafa komist til þess, þarf eg ekki að fara langt út í þetta mál, vegna þess, að eg hefi gert grein fyrir skoðun minni í nefndarálitinu. Eg skal þó geta þess, að eg hefi slept þar mörgu, sem ástæða var til að drepa á. Þannig hefi eg reynt að telja saman það fé, sem runnið hefir úr landssjóði, til vega í Árnes- og Rangárvallasýslu. Það er ekki smávægileg upphæð — nemur hátt upp í hálfa miljón. Eg hefi slept þessu og fleira, til þess að nefndarálitið yrði ekki of langt.

Viðvíkjandi Búðardalsbrautinni, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) aðallega talaði um, skal eg geta þess, að eg veit ekki betur, en að gert sé ráð fyrir, þegar strandferðabátar vorir taka til starfa, að Húnaflóabáturinn, ef honum skal það nafn gefa, hverfi úr sögunni. Það eru því lítil líkindi til, að ferðamenn og flutningar fari þessa leið, sem vakir fyrir háttv. þm. Dal. (B. J.). Ærið varasamt fyrir Dalamenn að treysta því. Eg get því ekki trúað öðru, en að Dalamönnum sé gerður greiði, ef þeim væri sýnt fram á, að það væri þeim óheppilegt, að vera að kaupa stóran bát til flutninga. Það er bæði mikill kostnaður í byrjun og reksturinn dýr. Eg fullyrði auðvitað ekkert um þetta, en hitt get eg sagt háttv. þm. (B. J.) að hag Húnvetninga í þessu efni má alveg sleppa, að fráskildum Hrútfirðingum.

Þegar talað var um það á þingmálafundum í Húnavatnssýslu, hvernig menn bezt gæti séð sér farborða með matvöru, vóru allir á eitt sáttir um það, að ekki væri í þeim efnum neinum ferðum fulltreystandi, heldur því einu, að afla sér nægs forða að haustinu í kauptúnunum eða á heimilum manna. Það tíðkaðist í minni barnæsku og hefir altaf þótt búmannlegt. Hér er um langar ferðir að tala, og ekki verður að því hlaupið að afla sér vöru, er illa árar og hestar eru lítt færir til langferða.

Þótt leiðin til Búðardals sé allmiklu styttri en suður í Borgarnes, þá er ætíð torvelt að sækja þungavöru þangað í harðindum.