11.07.1914
Neðri deild: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

34. mál, friðun fugla og eggja

Guðmundur Eggerz:

Mér þykir mikil furða, hvað háttv. þm. Dal. (B. J.) er orðinn mikill lambavinur. Hann var ekki svona mikill vinur þeirra í fyrra, ef eg man rétt. Þar sem hann sagði, að örninn hefði strádrepið lömb í Dalasýslu í vor, þá vil eg án þess beinlínis að vefengja orð hans, leyfa mér að efast um, að svo mikil brögð hafi verið að því, sem hann gaf í skyn. Eg er talsvert kunnugur þar vestra og eftir því sem eg veit bezt, eru þar ekki mörg arnarhreiður, naumast fleiri en 2–3. Þeim hefir þá fjölgað núna upp á síðkastið. Mér þykir þess vegna ástæða til að mælast til þess, að hann færi deildinni dánarvottorð lambanna.

Það var talað um það hér á þinginu í fyrra, að rétt væri að halda við fuglategundunum í landinu, svo að þær yrði ekki aldauða fleiri eða færri. Þá þótti það sannað, að ernir væri orðnir mjög fáir og fyrir því var ákveðið, að þeir skyldi friðaðir um 5 ára skeið. Ef nú á næsta þingi væri farið að breyta þessu, þá væri það sá hringlandi, sem ekki næði nokkurri átt. Að minsta kosti verð eg að segja það fyrir mitt leyti, að til þess að eg gangi ofan í atkvæði mitt í fyrra, þá verð eg að fá nýjar og áreiðanlegar upplýsingar áreiðanlegri en eg hygg að upplýsingar háttv. þingm. Dal. sé. Eg hygg, að eg sé eins kunnugur í Dalasýslu og hann, og ef svo mikil brögð eru að þessu sem hann lætur, þá hefir náttúra arnanna breyzt mikið síðan eg var drengur. Þá kom það stöku sinnum fyrir, að örninn tók svo sem 1–2 lömb á ári, en aldrei man eg eftir því, að hann kæmi í varplönd, og er eg þó alinn upp í eyju.

Ef eg væri hræddur um, að það yrði háttv. þm. Dal. (B. J.) að falli hjá kjósendum hans, ef þetta mál fengi ekki framgang, þá mundi eg ef til vill vera með því að ófriða örninn, en eg skil ekki í, að til þess komi.