16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

27. mál, forðagæsla

Flutn.m. (Einar Arnórsson):

Eg get verið fáorður um þetta frumv. Það er fram komið í því skyni að ráða bót á göllum, sem þykja vera á forðagæzlulögunum frá síðasta þingi. Það hefir komið fyrir síðan þessi lög gengu í gildi, að hreppsbúar hafa alls ekki kosið forðagæzlumenn eins og skipað er fyrir í lögunum. Frumv. á að ráða bót á þessu með því að koma því ákvæði inn í lögin, að sýslumenn geti skipað forðagæzlumenn, ef hreppsbúar vanrækja að kjósa þá. Önnur breytingin miðar að því að gefa hreppstjórum heimild til að taka búfénað frá búanda, ef skoðunarmaður álítur, að hann hafi ekki nægt fóður, eða afla fóðurs á hans kostnað.

Lögin eru, eins og þau eru nú, lex imperfecta, þ. e. a. s. ekki hægt að framfylgja þeim eins og þörf er á. Hvað trygginguna snertir, sýnist ekki nema réttlátt, að hreppurinn eigi rétt á að ná endurgjaldi fyrir það fóður, sem hann leggur fram.

Eg leyfi mér svo að stinga upp á, að þessu frumv. verði, að umr. lokinni, vísað til nefndar þeirrar, sem fjallar um breytingu á bjargráðasjóðslögunum, því að málin eru allskyld.