16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

27. mál, forðagæsla

Eggert Pálsson:

Eg verð að taka í sama strenginn og þeir, sem hafa andmælt þeirri lagabreytingu, sem hér er farið fram á. Mér er kunnugt um, að þessi lög hafa mætt mjög mikilli mótspyrnu, og get eg þannig staðfest þau ummæli, sem hér hafa fallið um það. Það hefir átt sér stað, þar sem eg þekki bezt til, að menn hafa neitað að kjósa forðagæzlumenn einmitt til þess að láta í ljós óánægju sína, fremur en af því, að þeir hafi haldið, að lögin yrði óframkvæmanleg fyrir það. Þeir litu svo á, að þó að þeir kysi ekki, þá yrði stjórnarvöldin að skipa þessa forðagæzlumenn, enda liggur það beint í augum uppi, að svo framarlega, sem lögin eiga að framkvæmast, verða einhverjir forðagæzlumenn, einn eða fleiri, að vera til í hverjum hreppi. Með tilliti til þessa er því þessi 1. gr. frumv. algerlega óþörf. Breyting á lögunum vegna þessa atriðis er því frá mínu sjónarmiði þýðingarlaus. Það sem vakir fyrir mér með því að leggjast á móti þessu frumvarpi er það, að mér er kunnugt um — og svo mun háttv. flutningsmönnum líka vera — að óánægja manna út af þessum lögum, er afarmikil. Mér virðist því, að það sé ekki til annara en að kasta nýju eldsneyti á óánægjuglóðirnar að ætla sér að fara nú að lappa upp á lögin á þennan hátt, sem hér er farið fram á. Eg veit líka, að háttv. fyrra flutningsm. þessa frumv., 1. þm. Árn. (S. S.) hlýtur að vera kunnugt um, að sams konar megn óánægja með lögin eigi sér einnig stað í kjördæmi hans. Þetta virðist og óbeinlínis koma í ljós í afstöðu hans gagnvart frumvarpi þessu. Því að þótt hans nafn standi framar sem flutningsmanns, þá hefir hann ekki tekið að sér að vera formælandi þess hér í deildinni, heldur lætur samþingismann sinn hafa hér alt fyrir. Þessi verkaskifting milli flutningsmanna, að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) verður hér að hafa alt fyrir og vera einn formælandi frumvarpans, stafar bersýnilega af því, að hann er ókunnari skoðunum manna í kjördæminu í þessu efni. Að öðrum kosti býst eg ekki við, að hann hefði tekið að sér framsöguna, því að ekki býst eg við, að hann sem lögmaður hafi álitið breytinguna, sem 1. gr. frumv. gerir á forðagæzlulögunum, svo nauðsynlega, að hann þess vegna hafi viljað taka að sér það vanþakkláta verk, að gerast formælandi frumvarpsins og forðagæzlulaganna yfir höfuð. Eg trúi því ekki fyrr en eg tek á, að hann álíti þessa lagabreytingu nauðsynlega, vegna þeirra ákvæða, sem 1. gr. frumv. inniheldur, um það, hvernig að skuli fara, ef hreppsbúar vilja ekki neyta kosningarréttar síns. Eg býst við, að hann hljóti að vera mér samdóma í því, að þá sé ekki um annað að gera — þótt þetta frumvarp verði ekki að lögum — en að landsstjórnin verði að skipa forðagæzlumanninn.

Hin breytingin, sem frv. inniheldur, er talsvert veigameiri, það játa eg. En hlýtur líka að hafa í för með sér stórum aukna ábyrgð forðagæzlumannanna. Ef þeir eiga að hafa leyfi til þess að taka fénaðinn af eiganda og koma honum til fóðurs hjá öðrum, þá bera þeir ekki að eins ábyrgð á því, að fénaður sá lifi í fardögum, heldur líka að hann sé afhentur í góðu ástandi. Það nær engri átt, að eigandi þurfi að sætta sig við að fá að eins rytjuna af skepnu sinni, eftir að forðagæzlumaður eða hreppsnefnd hefir tekið hana af honum með valdi til þess að koma henni annarsstaðar fyrir og heimtað af honum fullkomna meðgjöf með henni. Um leið og vald forðagæzlumanna er aukið, hlýtur líka ábyrgð þeirra að aukast, svo framarlega sem nokkurt réttlæti fær að ráða.

Hvað það snertir, sem nokkrir andmælendur frumvarpsins hafa bent á, að réttast myndi að nema sjálfforðagæzlulögin úr gildi, þá skal eg taka það fram, að ekki skal standa á mínu atkvæði til þess. Að eg ekki hefi gerst hvatamaður að því, stafar ekki af því, að eg álíti lögin góð, heldur af hinu, að eg tel tormerki á því að afnám laganna fáist í gegn hér á þinginu að þessu sinni, og því þýðingarlaust að bera fram uppástungu um það. En nái þessar breytingar fram að ganga, þá er eg sannfærður um það, að óánægjuraddirnar í landinu verða svo sterkar, að þingið fær ekki staðið þær af sér til lengdar.

Og verði þessi breyting, um að auka vald og þá jafnframt ábyrgð — ef ekki lagalega þá samt siðferðilega — forðagæzlumannanna, samþykt, þá er eg hræddur um, að það geti orðið þess valdandi. að síður fáist greindir og samvizkusamir menn til þess að takast þetta vandasama starf á hendur, og afleiðingin verði sú, að starfið lendi að eins í höndum hinna skeytingarlausari og samvizkulítilla manna, Svo enn verra verði að búa undir lögunum en ella. yfir höfuð hygg eg, að alt þetta forðagæzluvafstur verði ekki til þess að auka velgengni eða búskaparáhuga bænda, heldur þvert á móti.

Þegar allri ábyrgð er létt af einstaklingnum og varpað yfir á aðra, þá er hætt við, að það fremur dragi úr en auki atorku og dugnað einstaklingsins. Það er ekkert líklegra, en að menn hugsi sem svo, að minna geri til, þótt þeir sé fyrirhyggjulausir — þeim þýði hvort sem er ekkert að vera að gera ráðstafanir, þar sem forðagæzlumennirnir geti alt af gripið fram í fyrir þeim og ónýtt þeirra eigin verk og fyrirætlanir.