16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

27. mál, forðagæsla

Flutningsm. (Einar Arnórsson):

Það er að eins stutt athugasemd vegna orða háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.). Eg býst við, að hann geti verið mér sammála um það, að það stendur ekki í lögunum, hver skipa eigi forðagæzlumann, ef hreppsmenn kjósa hann ekki. Hann segir, að þá eigi stjórnin að gera það — en það stendur hvergi í lögunum. En sé skýring háttv. þingmanna rétt, þá spillir það ekki til, að skýrt ákvæði um það standi í sjálfum lögunum, eina og ætlast er til með 1. gr. frumv.

Það er aldrei til tjóns, að lagaákvæði sé skýr — og hér er ekki einu sinni venja til þess að byggja á.

Háttv. þingmaður býst við, að þetta frv. muni kyrkja menn og drepa alla ábyrgðartilfinning einstaklinga. En þetta er alveg rangt. Eg býst við, að allir muni hugsa sem svo: fyrst hreppstjóri eða hreppsstjórn með ráði forðagæzlumanna getur tekið af mér fénaðinn, þá verð eg að fara skynsamlega að, svo að eg komist ekki í þær ófærur, að þess verði þörf. Allir betri menn munu hugsa svo, en hinir, sem trassafengnir eru, hafa enga ábyrgðartilfinningu að missa, svo að ekki verður að ræða þar um neina skerðingu á ábyrgðartilfinningu manna.

Þá vildi háttv. þingmaður nota það sem rök gegn frumvarpinu, að háttv. samþingismaður minn, sem er 1. flutningsmaður, er ekki framsögumaður. En eg skal láta hann vita það, að við erum svo góðir samverkamenn, að við skiftum með okkur verkum. Hann bar sinn hluta af byrðinni á fundinum í gær og eins verð eg að gera í dag.