27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

27. mál, forðagæsla

Jón Jónsson:

Eg býzt við, að eg greiði atkvæði með þessu frumv., þótt eg sé samdóma háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) um það, að það muni ekki koma að miklu gagni. Eins og tekið hefir verið fram, er hreppstjóra ætlað að afla eða láta afla fóðurs á ábyrgð sveitarsjóðs, og álít eg það ekki heppilegt, að hreppstjóri, sem ekki er í hreppsnefnd, geti bakað sveitarajóði þá ábyrgð, án samþykkis hreppsnefndar. Það er sagt, að tilætlunin sé sú, að þetta skuli gert með ráði oddvita, en í breyt.till. er þetta ekki fastákveðið, og þess vegna vildi eg skjóta því til nefndarinnar, hvort ekki væri rétt að orða þetta skýrara. Eg hefi minst á þetta við háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), og sagði hann mér, að það væri ætlunin, að slíkar ráðstafanir væri gerðar í samráði við hreppsnefndaroddvita.