11.07.1914
Neðri deild: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

31. mál, þingsköp Alþingis

Flutningsm. (Einar Arnórsson):

Þetta frv. er framkomið, ekki einungis fyrir atfylgi mitt og þeirra manna, sem á því standa sem flutningsmenn, heldur og margra annarra mætra manna, bæði hér í deildinni og í Ed.

Flestar þær breytingar, sem frv. fer fram á, eru formeðlis, en þó eru nokkrar efnisbreytingar, sérstaklega við 10. gr. Þær hafa komið fram af því, að það hefir þótt nauðsynjamál að breyta ákvæðum þingskapanna hér að lútandi, vegna þess, að ráðsmenska sumra milli þingaforsetanna á seinustu árum hefir ekki þótt sem heppilegust. Kostnaður við útgáfu alþingistíðindanna hefir farið hækkandi ár frá ári, sérstaklega á 2 seinustu þingum, aukaþinginu 1912 og þinginu 1913. 1912 var kostnaðurinn við ritstjórn og prófarkalestur kr. 8,78 á hverja örk, eða 25% hærri heldur en 1909. Og 1913 verður ritstjórnarkostnaðurinn enn hærri, eða kr. 10,70 til uppjafnaðar á örkina, og þannig 22% hærri en 1912. Ef þessu heldur áfram í sama farinu, er ekki gott að vita hve hátt er hægt að komast með tímanum.

Menn skyldu nú ætla, að í útgáfu Alþingistíðindanna hefði verið lögð meiri vinna en áður. En því fer mjög fjarri. Þvert á móti sýnist minni vinna hafa verið lögð í það verk. Eg skal aðeins leyfa mér að benda á, að prófarkir eru miður lesnar en áður. Svo er málum raðað eftir fundum, og hlýtur það að létta »redaktionina« að mun. Auk þess er annar frágangur svo, að illmögulegt má heita að nota alþingistíðindin, m. a. vegna þess, að yfirskrift er engin yfir dálkunum og efnisyfirlit hvergi nærri svo fullkomið sem vera þyrfti. Af þessu er sýnt, að því getur ekki verið til að dreifa, að meiri vinna hafi verið lögð í ritstjórn og prófarkalestur heldur en áður. Svo er þess að gæta, að ýmis. legt fleira er athugavert. Það kemur fyrir, að bersýnilegar villur í ræðum þingmanna eru ekki leiðréttar. Þannig er t. d. á dálki 2522 látin óleiðrétt bersýnileg villa, svo að setningin verður meiningarlaus. En vitanlega sér hver maður, sem ræðuna les, hvað ræðumaðurinn hefir meint. Það hefði átt að vera hægt með góðum vilja að leiðrétta þetta, og líka hefði mátt bera sig saman við ræðumanninn, því að hann á heima hér á staðnum.

Í einu hefti alþingiatíðindanna stendur svo, að rökstudd dagskrá, sem þingið samþykti í fyrra, hafi týnst á skrifstofunni. Þetta hefti var reyndar gjört upptækt, síðan endurprentað og þetta leiðrétt. En það vill þó svo til, að eg hefi hér við hendina eitt eintak af þessu »kriminella« hefti. Vitanlega var þessi rökstudda dagskrá bæði samtímis prentuð í skjalaparti þingtíðindanna og innfærð í bréfabók þingsins og gjörðabók, og þar að auki send stjórnarráðinu. Þetta er augljós vottur um dæmafáa óvandvirkni á útgáfunni, og sýnist því ekki vera ástæðulaust, að reynt sé að ráða bót á slíku framvegis.

Að svo komnu sé eg ekki ástæðu til að ræða þetta meira, en leyfi mér að stinga upp á, að sjö manna nefnd verði sett í málið.