13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Benedikt Sveinsson:

Háttv. þm. Dal. (B.J.) hefir nú að mestu tekið af mér ómakið og sýnt fram á það, hvað er aðalatriðið í þessu máli. Eg endurtek það, að það kemur í rauninni ekki þessu máli við, hverja skoðun menn hafa á þjóðjarðasölu alment. Það er ætíð rangt, að beita harðræði við einstaka menn og láta ekki lögin ganga jafnt yfir alla.

Í sambandi við þetta skal eg geta þess, að úrskurður sýslunefndar um þetta efni er alls ekki óyggjandi. Í þessari sömu sveit hefir ein jörð, sem um tíma var læknissetur, og nú er eina jörðin, þar sem skólahús stendur, verið seld með samþykki sýslunefndar, athugasemdalaust. Þetta sýnir, hve mikið er að byggja á úrskurði sýslunefndar, þessum hæstaréttardómi, sem ýmsir vilja vera láta.

Eg get tekið í sama streng og háttv. þingm. Dal. (B. J.) um það, að þeir, sem ekki vilja selja þjóðjarðir, ætti að vinna hreinlega að því, að fá þjóðjarðasölulögin numin úr gildi, en ekki að nota sér misklíð manna heima í héruðum til þess að meina einstökum mönnum að njóta ákvæða laganna. Enda er það hér ekki einungis ábúandinn einn, sem óskar þess, að þessi jörð sé seld, heldur heilt sveitarfélag, því að bæði vita sveitarmenn, að jörðin muni þá verða enn betur setin, ef hún er í sjálfsábúð, og svo hafa þeir í annan stað áskilið sér rétt til slægna í landi jarðarinnar, sem þeir fá ekki að öðrum kosti. Menn kynni nú að segja, að þá lægi beinast við að sveitin keypti þá jörðina, en það kæra bændur sig ekki um. Þeim er nóg að fá þetta ítak.

Að fara að skora á stjórnina að takmarka sölu á þjóðjörðum fremur en nú er, hygg eg að myndi leiða til þess, að gerðir hennar í því efni yrði, eða þætti að minsta kosti verða, nokkuð af handahófi. Það er hætt við því, að óvinir hennar myndi halda því fram, að hún yrði ekki fullkomlega réttlát í afskiftum sínum af þeim málum. Að minsta kosti hefir það stundum verið sagt hingað til, að meiri hömlur hafi verið á því fyrir annan stjórnmálaflokkinn, en hinn, að ná kaupum á þjóðjörðum. Og það myndi að líkindum einnig verða svo framvegis, að vinir stjórnarinnar gæti túlkað svo mál sitt, að þeir fengi óskir sínar uppfyltar, en aftur yrði einhverir agnúar á því fyrir andstæðinga hennar, jörðum þeirra væri þá svo »vel í sveit komið« o. s. frv.

Eg vænti nú þess, hverja skoðun sem hver hefir á þjóðjarðasölunni alment, þá amist menn ekki við því, að kjósa 5 manna nefnd í málið.