10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

113. mál, kosningar til Alþingis

Sveinn Björnsson :

Eg bað um orðið á elleftu stundu, en hún er nú löngu liðin, og komið fram á fyrstu stundu aftur, og skal eg því vera stuttorður.

Það er leitt að heyra hvern háttv. þm. á fætur öðrum tala um, að það sé sama sem að veita Reykjavík einhver sérréttindi, ef brt. á þgskj. 451 yrði samþ. Mig furðar á, að slíkur misskilningur skuli geta komist inn í heila þm., eftir að búið er að ræða málið í tvo daga, og flestir hafa viðurkent, að eina og nú er, hafi Reykjavík verið beitt hinu gríðarlegasta misrétti. Það þarf ekki annað en að líta á nokkrar tölur, til þess að sjá það, hve gífurlegur munur er á kjósendafjöldanum hér og í öðrum tvímenningskjördæmum, og hve fjarri fer því, að hér geti komið til tals nokkur sérréttindi fyrir Reykjavík. Þetta vil eg undirstrika enn og aftur.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sem er, eins og þegar hefir verið tekið fram, frægastur orðinn fyrir dugnað í þarfir fósturjarðar sinnar, sem sé Flóans, — hann tekur það sérstaklega sárt, ef Reykjavík skyldi fá þenna rétt. Hann fór um það mörgum fögrum orðum, að hún fengi ávalt sínum málum framgengt.

Eg hefi þegar tekið það fram áður, að nú er einmitt verið að svæfa tvö Reykvísk áhugamál í háttv. Ed., svo að þetta stendur nú ekki vel heima. Annars má segja, að það sé ekki svo oft, sem þetta kjördæmi fer fram á mikil útgjöld sér til handa úr landssjóði. Þau mál, sem nú eru hér fyrir þaðan, eru flestöll þess eðlis, að það er með öllu útlátalaust fyrir landssjóð, þótt þau sé samþ. Þau fjalla að eins um fyrirkomulagsatriði innan bæjar, svo að ef þau næði ekki fram að ganga, þá væri Reykjavík beitt fylsta órétti, því að ekkert er það í þeim, sem að nokkru leyti gæti snert illa almenningaheill. Þessi háttv. þm. lagði mjög mikið út af því, að Reykjavík hefði svo margt annað fram yfir önnur kjördæmi landsins, svo sem embættismenn og skóla, að hún nyti óbeinlínis af því mesta hagnaðar. Sé það nú rétt, að hún sé öðrum betur sett að því leyti, að kaupm. hafa hér embættismennina að selja mat og aðrar nauðsynjar, þá verð eg þar á móti að halda því fram, að hún geldur líka meira til opinberra þarfa en önnur kjörd., svo að ef háttv. þm. vill fara þar í samjöfnuð, þá hygg eg að það muni fáir landshlutar þola. Hann tók það fram, að samkvæmt atkvæðagreiðslu í fyrradag, ætti að fella þessa brt. Eg verð nú að segja það, að þótt þingið hafi ekki séð sér fært að laga kjördæmaskipunina kringum alt landið, þá ætti ekki að vera þar með útilokað að taka til greina þetta eina atriði, sem er svo að segja óumflýjanlegt. Annars skil eg hreint ekkert í grimd þessarra háttv. þm. við Rvík. Að minsta kosti talar háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) stundum öðruvísi. Eg man ekki betur en að hann prédikaði t. d. á Dagsbrúnar fundi um jafnrétti fyrir alla, bæði Reykvíkinga og aðra út um land.

Háttv. þm. Mýramanna (J. E.) kom fram með merkilega trúarjátningu, sem sýndi, að hann hafði meiri hreinskilni til að bera en hinir aðrir. Eg held að yfirleitt hafi komið fram á þessu þingi meiri hreppapólitík en ella gerist, og hann kannaðist við hana fyrir sitt leyti, en það hafa aðrir ekki gert. Eg vil minna á það í þessu sambandi, að það verður þó aldrei út skafið, að þingm. eru þó fyrst og fremst þingmenn fyrir alt landið. Hvað eru aðalmál löggjafarvaldsins á þessu þingi? Er það hreppapólitíkin? Nei, það er stjórnarskrármálið, fánamálið o s. frv., mál, sem snerta hvert mannsbarn í landinu, en hreppapólitíkin kemst aldrei nema í aðra röð.

Það er nú búið að svara mörgu, sem sagt hefir verið, svo eg get farið fljótt yfir sögu. Um Seyðisfjörð skal eg undirstrika það, að það er skýrt og ómótmælanlegt, að aldrei var ætlast til þess, að hann yrði sérstakt kjördæmi, nema til bráðabirgða. Háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) fann að því, að við þm. kjörd. værum að sýna rögg af okkur með því að reka réttar okkar kjörd., en í sömu andránni er hann að reka réttar — eða réttara sagt hróplegs óréttar — síns kjörd. sjálfur. Hann má vitanlega gjarna draga taum kjörd. síns, en þar er þó ólíku saman að jafna við misrétti það, sem Reykjavík er beitt.

Aðalatriðið hjá háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) var þessi dæmalausa firra, að það væri rétt að svifta menn kosningarrétti, er þeir flytji til Rvíkur. Svo talaði hann um það, að þetta mál mætti bíða næsta þings. Já, þarna gægist það fram hjá þeim, sem oftar, að þeir eru í raun og veru sannfærðir um það, að hér sé um rétt mál að ræða, og þá tala þeir um að það megi bíða. En það er skylda manna, þegar þeir sjá réttinn, að breyta þá samkvæmt því þegar í stað.

Háttv. þm. V.-ÍSf. (M. Ó.) vildi láta spyrja þjóðina um það, hvort hún vildi bæta á sig þeim kostnaði, sem þessu væri samfara. Það er nú í mesta lagi svo sem sjö hundruð krónur annaðhvert ár. Og um það á nú að fara að spyrja þjóðina mjög svo hátíðlega. Þá þætti mér ástæða til að spyrja þenna háttv. þm., hvort hann vildi ekki »spyrja þjóðina« um þessa smáræðis fúlgu, sem hann vildi moka í Þorlákshöfnina á dögunum. Hann var að tala um, að þetta yrði til þess að auka bitlinga til Rvíkurþm. Það er ástæðulaust að bregða þeim um bitlingaþágu. Eg skal nefna t. d. bankaráðsstöðuna við Íslandsbanka, sem telja má aðalþingbitlinginn. Í hana hafa verið kosnir 1 maður af Akureyri, 1 af Eskifirði og einn af Blönduósi, en ekki einn einasti Reykvíkingur.