13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Guðmundur Eggerz:

Háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) heldur því fram, að nauðsynlegt sé að afnema lögin um sölu þjóðjarða frá 1905. Eg verð nú að segja það, eftir þeirri reynslu, sem eg hefi, að stjórnin hefir verið heldur íhaldssöm í því að selja þjóðjarðir, því að hún hefir oft ekki selt jarðir, sem sýslunefndir hafa ekkert haft á móti að selja. Eg sé því enga ástæðu til þess, að lögin megi ekki halda áfram að vera eins og þau eru. Það má vel vera, að landið hefði meira lánstraust, ef það héldi jörðunum í sinni eigu, en það er hart fyrir menn, sem búið hafa langan aldur á sömu þjóðjörðinni, að fá hana ekki keypta til þess að börn þeirra geti tekið við henni af þeim. Það er rétt, að engin sönnun er fyrir því, að menn haldi áfram að búa á þjóðjörðum þeim, er þeir kaupa, en það dettur heldur engum í hug að reyra menn með neinum hlekkjum fasta við einhverja vissa jörð frekara en þeir vilja. Og eg hugsa, að þegar dregur frá Reykjavík og kaupstöðunum yfirleitt, þá verði sú raunin á oftast, að ábúandinn haldi áfram að sitja á jörð sinni, er hann hefir keypt hana. Það er ekki svo hætt við jarða »spekulationum«, nema rétt í kringum stærstu þorpin.

Það verður að taka tillit til þess, að það er sárt fyrir mann, sem er búinn að búa í fjölmörg ár á, sömu jörðinni, að geta ekki, ef hann hefir efni til þess, trygt hana sínum nánustu.

Út af því sem háttvirtur sessunautur minn sagði, vildi eg mega benda honum á, að jarðir eru áreiðanlega betur setnar, ef sami ábúandi er lengi í einu, heldur en ef þær lenda á flækingi hjá hinum og þessum. Eg skal fúslega ganga inn á það, sem hann sagði, að jarðirnar væri »stabil« eign fyrir landið, en fyrst svo er, þá eru þær það ekki síður fyrir ábúandann. Og benda má á það, sem oft hefir áður verið gert, að jarðirnar eru venjulega betur setnar af eiganda en leiguliða.