13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Björn Hallsson:

Það var einungis stutt athugasemd, sem eg vildi gera vegna ræðu háttv. 1. þingm. Rvk. (Sv. B.). Hann beindi þeirri spurningu til mín og samþingismanns míns, hvaða trygging væri fyrir því, að jörð, sem hefði verið seld, héldi áfram að vera í sjálfsábúð um lengri tíma? Eg skal játa það, að fyrir því er engin föst trygging, en reynslan sýnir, að sjálfseignarbændur skifta ekki oft um bústaði, heldur reyna að búa sem bezt um sig á jörðinni sinni, svo að þeim geti liðið þar sem bezt. Flestir bændur eiga líka börn, sem taka við jörðinni eftir þeirra dag. Enda þykir flestum vænst um þann stað, sem þeir eru uppaldir á, og því ekki nema eðlilegt, að börnunum þyki vænt um bústaði foreldra sinna og æskustöðvar sínar og vilji ílengjast þar.

Eg skal ekki deila meira um þetta mál nú, til þess að lengja ekki umræðurnar, sem þegar eru orðnar nógu langar.