13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Jón Jónsson:

Háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) hélt því fram, að það væri misskilningur hjá mér, að halda að jarðir væri betur setnar, ef þær væri í sjálfsábúð, heldur en annars. Eg get ekki fallist á að þetta sé rétt. Mér finst reynslan benda á, að minn málstaður sé réttur. Sé svo, að honum finnist reynslan ekki benda á það, eða vilji hann ekki leggja mikið upp úr reynslunni, þá erum við þar á gagnstæðri skoðun, en það er ekki neinn misskilningur frá minni hálfu, sem á sér stað.

Sami háttv. þingmaður sagði, að það væri engin trygging fyrir því, að jarðirnar héldi áfram að vera í sjálfsábúð lengi eftir að þær hefði verið seldar. Mikið rétt, fyrir því er engin föst trygging, en mér finst ekki ástæða til að halda, að hætta sé á, að jarðirnar safnist á einstakra manna hendur, meðan svo stendur á, sem nú hér á landi, að allmargir virðast vera að þreytast á og gefast upp við búskapinn.

Ekki get eg felt mig með nokkru móti við þá skoðun háttv. 1. þingm. Rvk. (Sv. B.), að lánstraust landsins sé undir því komið, að landssjóður eigi sem mest af fasteignum. Eg held, að það hafi minsta þýðingu fyrir lánstraust landsins, en hitt meiri, að vér höfum orð fyrir að vera skilsöm og áreiðanleg þjóð, og eg trúi því ekki, að ef vér sýnum dugnað, fáum vér ekki lán nema að setja veð, enda hélt eg, að það væri ekki ætlan háttv. 1. þingm. Rvk. (Sv. B.), að landssjóður þyrfti að eiga jarðirnar til tryggingar gegn lánum.