13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Sigurður Sigurðsson:

Eg hafði ekki ætlað mér að taka til máls í þessu máli, en vegna ýmsra athugasemda og mótmæla gegn skoðunum þeim, er hv. 1. þm. Rvík (Sv. B.) hefir haldið hér fram — en nú er hann dauður — get eg eigi stilt mig að segja nokkur orð.

Því hefir verið haldið fram, að þjóðjarðir og aðrar leigujarðir væri að jafnaði verr setnar, en þær jarðir, sem eru í sjálfsábúð. Um þetta hafa aldrei verið til neinar skýrslur, svo að alt, sem um þetta er sagt, er út í bláinn. En eg get nefnt eitt dæmi þess, að svo muni þó ekki vera alment. Sá maður, sem mældi jarðabætur í upphluta Árnessýslu í fyrra, tók sér fyrir hendur að rannsaka, hvorir ynni meira að jarðabótum, leiguliðar eða sjálfsábúðarbændur. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að þeir ynni mjög líkt og sýndi með tölum, að dagsverkamunurinn var — ein tvö dagsverk. Eg játa það fúslega, að ekki er mikið á þessu byggjandi fyrir alt landið, en þó hygg eg, að það sé sanni næst, að leiguliðar sitji ekki öllu verr en þeir er búa á sjálfs síns eign. Eg hygg, að mér sé óhætt að fullyrða, að í betri sýslum landsins að minsta kosti, sé leigu jarðir ekki að jafnaði verr setnar en hinar.

Þá vildi eg minnast á annað atriði, sem um hefir verið deilt hér í dag. Sumir háttv. þingmenn hafa haldið því fram, að sala þjóðjarðanna sé trygging fyrir því, að þær haldi áfram að vera í sjálfsábúð. Eg held að þetta sé hinn mesti misskilningur. Allur fjöldinn af þeim, sem kaupa jörð, er ekki búinn að eignast hana þegar þeir falla frá. Hver er svo tryggingin fyrir því, að jörðin haldist í sjálfsábúð eða lendi ekki einhversstaðar og einhversstaðar og gangi kaupum og sölum. Og þó að maðurinn, sem keypti, sé búinn að eignast jörðina þegar hann fellur frá, þá er tryggingin samt engin fyrir því, að sjálfsábúðin haldist við í framtíðinni. Getur vel verið, að erfingjarnir komi sér ekki saman um það, hverskuli hreppa jörðina, og margt fleira getur hindrað það, að sjálfsábúð haldi áfram á seldri þjóðjörð til lengdar.

Eg skal nú ekki fjölyrða um þetta frekara en orðið er, en að eins geta þess, að eg mundi styðja það, að lögin um sölu þjóðjarða frá 1905 yrði úr lögum numin.