10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

113. mál, kosningar til Alþingis

Matthías Ólafsson:

Það var aðeins örstutt svar til háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.). Hann var með skósur til mín út af því, að eg teldi vafa á því, hvort þjóðin kærði sig um, að auka við tveim þingmönnum; ef hún væri að spurð. Háttv. þm. sagði, að eg hefði ekki viljað spyrja þjóðina um fjárveitinguna til Þorlákshafnar. Getur hann bent mér á það, að fjárhagur landsins sé nokkru bættari fyrir það, þótt þessum tveim þingm. væri aukið við? Ef hann gæti það, þá skyldi eg vera með því, en eg er ekki farinn að sannfærast um það. Aftur á móti verður farið með eins mikið fé í þá, eins og tveir aðrir menn þyrfti til að lifa á alt árið. Eg sé ekki, að það bráðliggi á því, að auka tölu þingmanna. Það væri rétt að gera það ef þjóðin vildi það, en þá fyrst og fyrr ekki. Fyrst um sinn held eg, að þorskarnir úr Eyrarbakkaflóa geri meira gagn, en þessir tveir nýju þingmenn úr Reykjavík.