03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

87. mál, friðun á laxi

Framsögum.(Sigurður Sigurðsson):

Eg skal láta þess getið út af ummælum háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.), að laxfriðunarlögin frá 19. febr. 1886 heimila sýslunefndum að ákveða hvenær veiðitíminn skuli byrja, eða hvenær net skuli leggja. Það er aðeina algilt lagaákvæði, að veiðitíminn skuli standa í þrjá mánuði, en að öðru leyti mega sýslunefndirnar ráða því, hvenær net eru lögð í hverri sýslu fyrir sig. Það sem varðar mestu í þessu efni er það, að ekki sé byrjað að leggja netin of snemma. Eg gat þess við l. umr. frumvarpsins, sem tekið var aftur, að krafa þeirra Árnesinga, sem kynni að hafa óhag af þessarri breytingu, myndi vera sú, að netin væri ekki lögð eins snemma í árnar og nú tíðkast. En þessu ráða nú sýslunefndirnar samkvæmt laxfriðunarlögunum. Hér í þessu frumv. er ekki, í raun og veru, verið að leggja sýslunefnd Árnessýslu neitt nýtt vald í hendur. (Jóhann Eyjólfsson: Jú). Hún hefir þetta vald, að mega ráða, hvenær þessi ákveðni þriggja mánaða veiðitími byrjar, og þá er það ekki nema í samræmi við það, að hún fái einnig að ráða, hvernig hagað er 36 klukkustunda friðuninni. Hér er ekki sagt, að hún verði afnumin; sýslunefndin getur veitt undanþágu frá henni eða breytt eitthvað til í þessu efni.

Háttv. þm. Mýr. (J. E.) skoraði á deildina að hugsa sig vel um, áður en hún gerði ákvarðanir um þetta mál. Eg get tekið undir það með honum. Það er aldrei nema gott, að menn hugsi sig vel um, áður en þeir framkvæma eitthvað, og eg vil ráðleggja þeim, sem á móti þessu frumv. eru, að hugsa sig alvarlega um, áður en þeir greiða atkvæði, svo að þeir geri ekki neina vitleysu í þessu máli.