03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

87. mál, friðun á laxi

Benedikt Sveinsson:

Eg vakti fyrstur máls á agnúum þeim, sem mér virtist vera á frumvarpi því, er háttv. þingmenn Árnesinga fluttu á öndverðu þingi, þegar það kom til 1. umr. Reyndin hefir nú orðið sú í nefndinni, að meiri hluti nefndarinnar hefir ekki getað fallist á frumvarpið og flutningsmenn hafa tekið það aftur. En þetta nýja frumvarp finst mér ekki heldur svo vaxið, að það eigi fram að ganga.

Eg get ekki kannast við, að Árnesingar óski eftir svona lögum, því að samkvæmt því skjali, sem lagt var hér fram í lestrarsalinn, lágu aðeins fyrir óskir um þetta frá fáeinum bændum við Ölfusá. En engir þeirra, sem ofar búa, hafa óskað eftir neinum lögum í þessa átt! En ef taka ætti mark á slíkri ósk, þá yrði hún að koma frá þorra þeirra, sem veiði eiga í ám þeim, sem lag gengur í úr Ölfusá og þeir bændur eru miklu fleiri heldur en hinir, er búa neðst við ána og óska eftir þessu.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) sagði, að engin hætta væri á því, að sýslunefnd breytti veiðiákvæðunum til óhags fjöldanum, og að það væri aðeins menn úr tveim hreppum Árnessýslu, sem óskað hefði breytinganna. Sýslunefndarmenn þessarra tveggja hreppa gæti ekki komið fram breytingunum, ef allir hinir hrepparnir teldi sér það skaða. Gagnvart þessu má benda á, að allmargir hreppar sýslunnar eiga enga veiði í ám þessum og geta því látið sig einu gilda, hvað ofaná verður í Sýslunefnd. Skal eg þar til nefna Selvogshrepp, Stokkseyrarhrepp, Eyrarbakkahrepp, Gaulverjabæjarhrepp, Villingaholtshrepp og Þingvallasveit. Ef vinsæll og laginn sýslunefndaroddviti vildi beita sér til þess að fá framgengt breytingum á veiðitíma, í þá átt, sem hér ræðir um, þá þykir mér sennilegt, að honum gæti orðið gott til liðs meðal þessarra fulltrúa, sem sjálfum stendur alveg á sama, hvað ofan á yrði. — Líkt stendur á víðar, svo að alls eigi er víst, að vilji meiri hluta þeirra manna ráði, sem hlut eiga að veiðinni, heldur málafylgi ötulustu mannanna í sýslunefnd, af því að þar eru ýmsir menn, sem í léttu rúmi liggur, hver ákvæði gilda um þetta efni. Tel eg því alls eigi rétt að veita sýslunefndum þessa heimild.