08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

115. mál, kaup á Þorlákshöfn

Matthías Ólafsson:

Það er rétt, að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) er framsögumaður í þessu máli, en hann hefir leyft mér að segja um það nokkur orð, áður en hann tekur til máls.

Það er nú komið svo, að nefndin hefir komið sér saman um, að 6. mál á dagskrá skuli tekið aftur, og er það þá tekið aftur hér með. Það er í rauninni alveg sama málið og það, sem hér liggur fyrir. Mér var þetta sérstakt áhugamál, og eg skal ekki neita því, að eg hafði betri trú á því, að einstakir menn hefði Þorlákshöfn undir höndum, en stjórnin, og átti því lengi ilt með að taka frumvarpið aftur. Eg hugði sem sé, að umsjón og eftirlit með þessum stað yrði landastjórninni ef til vill mjög dýrt. Það sem nefndin aðallega óttaðist, var það, að eigendur jarðarinnar kynni að þrengja of mjög kosti þeirra, sem notuðu höfnina, en þá virtist mér að ætíð væri hægur hjá að taka jörðina eignarnámi. En um þetta skal eg nú ekki fara mörgum orðum. Eg hefi fallist á þetta frumv. eins og það nú er, með heimild til kaups og eignarnáms á jörðinni. Gagnsemi hafnarinnar er mér fyrir öllu. Þörfin fyrir hana er auðsæ, eins tjónið af því, ef það dregst að gera hana.

Ef frumvarpið fer til 2. umræðu, þá þyrfti að gera við það breyt.till., meðal annars að fella burt úr því ákvæði um það, hvenær byrjað skuli á verkinu. Eg hafði nú haldið því fram, að það yrði ekki seinna en í júní næstk.

Skal eg svo ekki segja meira um frumvarpið, en að eins mæla hið bezta með því.