08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

115. mál, kaup á Þorlákshöfn

Guðmundur Hannesson:

Þegar þessu máli var hreyft hér fyrst í deildinni, þá virtist mér það gott mál og þess vert að styðja það. En af því að eg er ókunnugur þar eystra, þá leitaði eg mér upplýsinga, og þó að þær sé að vísu ófullkomnar, þá horfir málið nú verr við frá mínu sjónarmiði, heldur en eftir frásögn framsögumannsins. Eg hafði í fyrstunni að eins nefndarálitið og framsöguna að styðjast við og samkvæmt þeim upplýsingum átti að vera hægt að koma upp höfn undir 40 báta fyrir 50–60 þúsund krónur, en fyrir 75 þúsundir átti að vera hægt að koma upp höfn handa 50 bátum. Ef svo væri, þá væri hér um álitlegan hlut að ræða. Eg hefi talað við landsverkfræðinginn og eg held mér sé óhætt að hafa það eftir honum, að hann hafi ekki sagt annað, en að garður sá, sem hér er um að ræða, mundi kosta um 75 þús. kr. Garðurinn á að liggja út í sker skamt frá landi, og það hagar svo til, að um stórstraumsfjöru er garðurinn allur á þurru landi. Sú höfn sem með þessu fengist, er ekki nema ofurlítill pollur og inn í hann liggur sund sem er 25 metra breitt.

Hér er í raun og veru ekki nema um örlitla holu að ræðu, en það er til þess ætlast að sprengja þar upp klöpp og gera bátauppsátur, svo að þarna verður ekki eiginleg leguhöfn. Sanna höfn væri þó mögulegt að búa til með því að gera þennan garð miklu lengri, en sú lenging mundi hafa þann kostnað í för með sér, sem færi langt fram úr þessari áætlun.

Þegar eg spurði landaverkfræðinginn hvaða gagn gæti nú orðið að þessum garði, þá var það hans álit, að litlar sem engar horfur væri á, að þetta gæti orðið til þess, að þar rísi upp verulegur fiskibær. Höfnin rúmar lítið og er ófullkomin, en ef meira ætti að gera, þá yrði fyrirtækið stórmikið. Nú er á það að líta, að flestir sem þarna róa, eru sveitamenn, sem ekki stunda sjó nema lítinn tíma ársins. Enn fremur er á það að líta, að fleiri eru ókostir við jörð þessa heldur en höfnin. Jörðin stendur þarna á hreinni og beinni eyðimörk. Vér sjáum það á korti landmælingamannanna, að graslendi er ekki annað en túnið, sem grætt hefir verið út, að líkindum. Umhverfis er sandur og hraun og virðist mjög langt í haga og harla óvistlegt á alla vegu, svo að ekki er líklegt að framtíðarhorfur geti verið þar glæsilegar.

Af þessu, er eg í meiri vafa en áður, hvernig taka á í þetta mál. Það er ekki nægilega undirbúið, og landsverkfræðingurinn hefir ekki gengið frá áætlunum sínum um garðinn að öðru leyti en því, að hann muni kosta um 75 þús. kr. út í skerið. Mér virðist nú svo komið, að fylsta ástæða sé til að afgreiða þetta mál með rökstuddri dagskrá og leita fullkomnari upplýsinga um málið, áður en farið er lengra út í það. Eg veit ekki. hvort öðrum virðist eins og mér, — mínar athuganir hafa verið gerðar á stuttum tíma. En eg vil ráða öðrum til þess að kynna sér málið betur, bæði hjá landsverkfræðingnum og af uppdráttum mælingamannanna, sem eru mjög glöggvir. Það getur verið að jörðin kunni að bera sig, þó að dýrkeypt sé, en það má ganga að því vísu, að einstaklingar vilji selja dýrt og eg tel óvíst um tekjur landssjóðs, ef samningar við útræðismenn eiga að vera sanngjarnir. Eg er ekki á móti því, að málið gangi til 2. umr., svo að fleiri fái að átta sig á því. En samt verð eg að telja vafasamt, að rétt sé að halda lengra út í það á þessu þingi.